Skoraði tvö mörk í síðustu ferð austur

Hildur Antonsdóttir á góðar minningar frá Austurlandi.
Hildur Antonsdóttir á góðar minningar frá Austurlandi. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Mér líst vel á þetta. Ég fer eiginlega aldrei austur og það verður gaman að fara þangað. Það eru leikmenn í hópnum okkar frá Egilsstöðum og það verður gaman fyrir þær,“ sagði Hildur Antonsdóttir, leikmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is.

Ríkjandi bikarmeistararnir mæta Fjarðabyggð/Hetti/Leikni á útivelli í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í fótbolta. Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, Heiðdís Lillýardóttir og Telma Ívarsdóttir eru allar frá Austfjörðum og halda þær á heimaslóðir.

Hildur mun spila á Austfjörðum í fyrsta skipti í áratug en hún skoraði tvö mörk í 7:0-sigri Vals á Hetti fyrir tíu árum síðan. 

„Ég spilaði síðast fyrir austan árið 2012 með Val. Þá var Heiðdís einmitt að spila sem framherji fyrir Hött. Ég man aðeins eftir leiknum. Hún var frammi og ég var á miðjunni og við mættumst ekkert það mikið.

Ég skoraði tvö mörk, við unnum og svo var gerð hópferð úr þessu og það var kvöldvaka með báðum liðum eftir leikinn. Þetta er lengsta ferðalag sem hægt er að fara í hér og það er gott að nýta það til að efla hópinn.“

Breiðablik hefur farið nokkuð vel af stað í sumar og er liðið í öðru sæti Bestu deildarinnar með níu stig eftir fjóra leiki, stigi á eftir Selfossi. Liðið hefur unnið þrjá leiki en tapaði óvænt fyrir Keflavík í 2. umferð.

„Mér finnst við hafa spilað vel. Það var leiðinlegt að ná ekki í þrjú stig gegn Keflavík því við spiluðum vel og áttum góðan leik. Þetta snýst hinsvegar um að skora mörk og það gerðum við ekki. Hinir leikirnir hafa spilast vel hjá okkur,“ sagði Hildur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert