Þvílíkar framfarir síðan ég kom til Íslands

John Andrews er þjálfari kvennaliðs Víkings.
John Andrews er þjálfari kvennaliðs Víkings. Ljósmynd/Víkingur Reykjavík

Írinn John Andrews, þjálfari kvennaliðs Víkings í fótbolta, brosti sínu breiðasta er liðið dróst á móti Þrótti úr Reykjavík í 16-liða úrslit Mjólkurbikars kvenna í fótbolta í Laugardalnum í dag. Andrews er góður vinur Nik Chamberlain, þjálfara Þróttar.

„Nik er góður vinur minn og við höfum mæst oft á undirbúningstímabilinu á undanförnum árum. Hann hefur gert glæsilega hluti með Þrótt og leikmennirnir eru frábærir,“ sagði Andrews í samtali við mbl.is.

„Okkur var alveg sama um andstæðing því við eigum tvo deildarleiki en það verður gaman að mæta vini sínum og þetta verður barátta. Hann getur verið stoltur af því sem hann er að gera hjá Þrótti,“ bætti hann við.

John Andrews lék með og þjálfaði hjá Aftureldingu.
John Andrews lék með og þjálfaði hjá Aftureldingu. Ljósmynd/Ernir Eyjólfsson

Chamberlain dró andstæðinga Þróttar og hann var sannspár áður en drátturinn fór fram. „Hann sagði mér í þessum fallegu stuttbuxum sem hann var í að hann myndi draga okkur og svo dró hann okkur. Þetta verður áhugaverður leikur því Þróttur spilar góðan fótbolta og við spilum góðan fótbolta. Þetta verður góður fótboltaleikur.“

Frábært að vinna með þessum leikmönnum

Andrews kom fyrst til Íslands árið 2008 og hann sér miklar framfarir í fótbolta í kvennaflokki hér á landi, sérstaklega í neðri deildunum. „Síðan ég kom aftur til Íslands hafa verið þvílíkar framfarir í kvennafótboltanum. Leikmenn eru almennt í mun betra formi og staðallinn er mun hærri, sérstaklega í 1. og 2. deild. Það getur allt gerst í bikarkeppninni.“

Víkingur hefur leikið fjóra leiki á leiktíðinni til þessa, tvo í bikarnum og tvo í deildinni, og unnið þrjá þeirra. Liðið tapaði fyrir FH í síðasta deildarleik. Þrátt fyrir það er sá írski ánægður með byrjunina á mótinu.

„Það er frábært að fá að vinna með þessum leikmönnum. Við spiluðum mjög vel á móti Augnabliki og sýndum þetta fræga Víkingshjarta á móti FH. FH var magnað í fyrri hálfleik og við mögnuð í seinni hálfleik.

John Andrews í tæklingu í leik með Aftureldingu.
John Andrews í tæklingu í leik með Aftureldingu. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Við spiluðum vel á móti Fram í bikarnum og Fram er lið til að fylgjast með. Það er verið að gera frábæra hluti þar. Svo var leikur á móti Grindavík sem var mjög erfiður og erfitt að brjóta þær niður en það tókst á endanum. Þetta er fótbolti og það er æðislegt að vera hluti af honum,“ sagði hann fullur eldmóði.

Talar góða íslensku

Þótt viðtalið hafi farið fram á ensku að beiðni Andrews, talar hann mjög góða íslensku. Hann rifjaði upp leið sína í íslenska fótboltann.

„Ég var að þjálfa í háskólaboltanum í Bandaríkjunum árið 2007 og Gareth O‘Sullivan, sem var hjá Aftureldingu og KR, er vinur minn. Hann sá mig vinna í háskólaboltanum og var hrifinn af því sem hann sá. Hann sannfærði mig um að koma til Íslands að spila og þjálfa.

Ég hef meira og minna verið á Íslandi síðan, fyrir utan skamman tíma í Indlandi þar sem ég vann fyrir Liverpool. Þetta eru 12-13 ár og á þeim tíma hef ég lært tungumálið nokkuð vel. Ég er nýbúinn að kaupa íbúð í Mosfellsbæ og ég á von á að vera hérna lengur,“ sagði Andrews.

Frá leik Víkings og Augnabliks á síðustu leiktíð.
Frá leik Víkings og Augnabliks á síðustu leiktíð. Ljósmynd/Óðinn Þórarinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert