Stórt fyrir félagið

Nik Anthony Chamberlain, þjálfari Þróttar.
Nik Anthony Chamberlain, þjálfari Þróttar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar, var afar sáttur þegar blaðamaður mbl.is hitti á hann strax eftir sigurleik liðsins gegn Þór/KA í Bestu deild kvenna í knattsyrnu í kvöld í Laugardalnum.

„Ég er mjög ánægður með þessi úrslit. Mjög sáttur. Við náðum að framkvæma það sem við vildum á fyrstu 30 mínútum leiksins en gáfum aðeins eftir í lok fyrri hálfleiks. En eftir að við skorum fjórða markið var þetta komið að mínu mati og liðið kláraði leikinn af mikilli fagmennsku.

Ég veit að við erum á toppnum í deildinni ásamt liði Selfoss þessa stundina og það er auðvitað stórt fyrir félagið en það mun breytast á morgun þegar hin liðin í toppbaráttunni spila. Það er bara mjög gott að ná þessum sigri, frábært að vera komin með 10 stig eftir þessa fimm leiki.

Það var líka gott að geta notað allar okkar skiptingar og leyft stelpum sem hafa verið að spila minna að fá mínútur og hvíla aðrar sem hafa spilað mikið enda aftur leikur á mánudaginn,“ sagði Nik Chamberlain við blaðamann mbl.is eftir leikinn í kvöld í Laugardalnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert