Þróttarar skoruðu fjögur gegn Þór/KA

María Eva Eyjólfsdóttir og Tiffany McCarty eigast við í Laugardalnum …
María Eva Eyjólfsdóttir og Tiffany McCarty eigast við í Laugardalnum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Þróttur sigraði Þór/KA 4:1 í fyrsta leiknum í fimmtu umferð í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Danielle Marcano, Murphy Agnew og Álfhildur Rósa Kjartansdóttir komu Þrótti í 3:0 á fyrstu 28 mínútum leiksins en Margrét Árnadóttir náði að minnka muninn í lok fyrri hálfleiks. Murphy Agnew gerði svo sitt annað mark í leiknum og fjórða mark Þróttar á 58. mínútu og þar við sat.

Það tók leikmenn Þróttar aðeins 11 mínútur að komast yfir í Laugardalnum í kvöld en þa fékk Danielle Marcano frábæra sendingu inn fyrir vörn Þórs/KA frá Kötlu Tryggvadóttur og fór framhjá Hörpu Jóhannsdóttur í marki Þórs/KA og renndi boltanum í netið.

Murphy Agnew fékk tækifæri á 18. mínútu leiksins að koma liði Þróttar í 2:0 en þá fékk hún glæsilega hælsendingu frá Kötlu og var komin ein á móti Hörpu í markinu en Harpa varði vel frá Murphy.

En aðeins fjórum mínútum síðar fékk Murphy Agnew aftur góða sendingu frá Kötlu og að þessu sinni setti hún boltann framhjá Hörpu og kom Þrótturum í 2:0.

Það var svo fyrirliði Þróttar, Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, sem kom heimaliðinu í 3:0 en hún skoraði eftir hornspyrnu Andreu Rutar Bjarnadóttur.

Eftir þetta mark fóru leikmenn Þórs/KA aðeins að bíta frá sér og á 43. mínútu leiksins náði Margrét Árnadóttir að minnka muninn en þá fylgdi hún á eftir skoti Tiffany McCartney sem fór í varnarmann Þróttar en Margrét var vel vakandi og setti boltann í bláhornið, 3:1

Í seinni hálfeik byrjuðu gestirnir betur án þess að skapa sér alvöru marktækifæri. En það voru Þróttarar sem náðu að auka forystu sína á 58. mínútu en þá fékk Murphy Agnew góða sendingu inn fyrir vörn Þórs/KA frá Álfhildi Rósu og fór framhjá Hörpu í marki Þórs/KA og renndi boltanum í netið, 4:1.

Eftir þetta voru Þróttarar líklegri til að bæta við en Þór/KA að minnka muninn. Sem sagt öruggur sigur hjá liði Þróttar í Laugardalnum.

Þessi sigur þýðir að Þróttur er núna á toppi deildarinnar ásamt liði Selfoss með 10 stig en Selfoss á einn leik til góða. Breiðablik og Valur koma þar á eftir með níu stig en þau lið eiga sömuleiðis leik til góða. Þór/KA er aftur á móti áfram í sjötta sæti deildarinnar með sex stig.

Næsta verkefni Þróttar er útileikur gegn Keflavík á mánudaginn en á sama tíma leikur Þór/KA við ÍBV í Vestmannaeyjum.

Þróttur R. 4:1 Þór/KA opna loka
90. mín. Síðasta tækifæri Þórs/KA til að minnka muninn. Þær fá aukaspyrnu rétt við vítateigshornið.
mbl.is