FH-ingurinn ungi skiptir yfir í Breiðablik

William Cole Campbell í leik með FH gegn Breiðabliki í …
William Cole Campbell í leik með FH gegn Breiðabliki í upphafi mánaðarins, eina leik sínum á tímabilinu með FH. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Knattspyrnumaðurinn William Cole Campbell hefur fengið félagaskipti úr FH í Breiðablik þrátt fyrir að félagaskiptaglugginn hér á landi sé lokaður.

William Cole heldur til þýska stórliðsins Borussia Dortmund í júlí næstkomandi en í millitíðinni mun hann æfa með Breiðabliki og getur sömuleiðis tekið þátt í leikjum karlaliðsins eftir að hafa fengið félagaskipti í Breiðablik.

Ástæðan fyrir því að William Cole gat fengið félagaskipti þrátt fyrir að glugginn sé lokaður er sú að hann er aðeins 16 ára gamall. Geta leikmenn undir 18 ára aldri skipt um félag utan félagaskiptaglugga líkt og Fótbolti.net vakti athygli á í morgun.

Skiptin til Breiðabliks breyta þó engu um að William Cole er búinn að skrifa undir samning hjá Dortmund og heldur til Þýskalands í byrjun júlí. Hann hefur spilað tvo leiki með FH í efstu deild, einn í fyrra, þá 15 ára gamall, og hann spilaði gegn Breiðabliki í vor. Þá á William að baki fimm leiki með U17 ára landsliði Íslands.

mbl.is