Fylkir skoraði fimm og Grótta lagði HK

Ásgeir Eyþórsson og Nikulás Val Gunnarsson skoruðu báðir fyrir Fylki …
Ásgeir Eyþórsson og Nikulás Val Gunnarsson skoruðu báðir fyrir Fylki í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fylkismenn léku Fjölni grátt í Reykjavíkurslag í 1. deild karla í fótbolta í kvöld, Lengjudeildinni, og sigruðu 5:2 á heimavelli sínum í Árbænum. Grótta lagði HK að velli, 2:0, á Seltjarnarnesi.

Benedikt Daríus Garðarsson kom Fylki yfir snemma leiks gegn Fjölni en Hákon Ingi Jónsson, fyrrum Fylkismaður, jafnaði fyrir Grafarvogsliðið á 38. mínútu, 1:1.

En á lokamínútum fyrri hálfleiks skoruðu Nikulás Val Gunnarsson og Hallur Húni Þorsteinsson fyrir Fylki og Ásgeir Eyþórsson bætti við marki í byrjun síðari hálfleiks, þannig að staðan var orðin 4:1.

Ómar Björn Stefánsson kom Fylki síðan í 5:1 skömmu fyrir leikslok. Hákon Ingi náði að skora sitt annað mark, úr vítaspyrnu, 5:2, en síðan missti Fjölnir Hans Viktor Guðmundsson af velli með rautt spjald.

Fylkir er þá kominn með sjö stig en Fjölnir sex eftir þrjár umferðir.

Leikur Gróttu og HK var galopinn fram á lokakaflann en þá reyndust Seltirningar sterkari. Sigurbergur Áki Jörundsson kom þeim yfir á 72. mínútu og undir lokin innsiglaði Kjartan Kári Halldórsson sigurinn.

HK-ingar eru þjálfaralausir sem stendur eftir að Brynjar Björn Gunnarsson kvaddi um síðustu helgi til að taka við Örgryte í Svíþjóð. Ómar Ingi Guðmundsson, yfirþjálfari yngri flokka HK, stýrði liðinu í kvöld.

Grótta er komin með sex stig en HK er með þrjú stig.

mbl.is