„Hún greip boltann með báðum höndum“

Kristrún Ýr Holm, fyrirliði Keflavíkur, og Barbára Sól Gísladóttir, fyrirliði …
Kristrún Ýr Holm, fyrirliði Keflavíkur, og Barbára Sól Gísladóttir, fyrirliði Selfoss, í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Keflvíkingar voru varnarsinnaðir þegar þeir heimsóttu Selfoss í kvöld í Bestu deild kvenna í knattspyrnu. Kristrún Ýr Holm, fyrirliði Keflavíkur, var ánægð með frammistöðuna og að fá stig á útivelli en niðurstaðan varð markalaust jafntefli.

„Auðvitað ætluðum við að sækja sigur en við vorum aðallega að spá í frammistöðunni í dag. Mér fannst seinni hálfleikurinn miklu betri en sá fyrri, við bættum okkur þar og ég er ánægð með það.

Í rauninni er ég bara sátt með stig út úr þessum leik. Það var liðsframmistaðan sem skilaði þessu stigi í dag og ég tek það. Það er alltaf gott að fá stig á útivelli,“ sagði Kristrún í samtali við mbl.is eftir leik.

Keflvíkingar færðu sig upp á skaftið í seinni hálfleiknum en fengu fá færi. Það var þó stórt atvik á 60. mínútu þegar Susanna Friedrichs, varnarmaður Selfoss, nánast bar boltann í höndunum út úr vítateignum en Helgi Ólafsson, dómari leiksins, dæmdi ekki víti.

„Ég sá ekki þegar þetta gerðist en ég er búin að skoða upptökuna af þessu og ég er mjög hissa á því að það var ekkert dæmt. Hún greip boltann með báðum höndum og víti og mark á þessum tímapunkti hefði breytt leiknum,“ sagði Kristrún. „En í rauninni gekk planið hjá okkur upp í kvöld og við erum frekar sáttar með þessi úrslit.“

mbl.is