„Maður verður að gera þetta með stæl“

Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Júlíana Sveinsdóttir, miðvörður ÍBV, var kampakát með 1:0-sigurinn á Breiðabliki í 5. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld. Var hún afar öflug í vörn Eyjakvenna og skoraði auk þess sigurmarkið.

„Þetta var geggjaður sigur hjá okkur.Það var góður liðsandi og við börðumst fyrir hverja aðra þannig að þetta var mjög góður sigur. Við vorum mjög skipulagðar og þetta gekk mjög vel hjá okkur,“ sagði Júlíana í samtali við mbl.is eftir leik.

Eina mark leiksins kom á 14. mínútu þegar hún lét vaða af um 35 metra færi og fór skotið yfir Telmu Ívarsdóttur í marki Breiðabliks og í netið.

„Fyrsta markið mitt! Það var mjög gott. Maður verður að gera þetta með stæl,“ sagði Júlíana glettin, en um var að ræða hennar fyrsta mark í efstu deild í hennar 95. deildarleik fyrir uppeldisfélagið ÍBV.

Eyjakonur voru afar skipulagðar og gáfu fá færi á sér, sérstaklega í síðari hálfleik. Erlendir leikmenn ÍBV komu fyrr til Vestmannaeyja í ár en mörg undanfarin tímabil og sagði Júlíana það sannarlega hjálpa til.

„Það hjálpar mjög mikið að koma liðinu saman eins snemma og hægt er. Þá förum við að þekkja inn á hvora aðra og þá er auðveldara að skipuleggja og spila,“ útskýrði hún.

Spurð hvert ÍBV stefni á tímabilinu eftir þetta sterkan á sigur á utivelli sagði Júlíana að lokum:

„Við ætlum okkur að vera eins ofarlega og við getum, það er markmiðið.“

mbl.is