Selfyssingar misstu efsta sætið

Samantha Leshnak markvörður og Caroline Van Slambrouck miðvörður Keflavíkur verjast …
Samantha Leshnak markvörður og Caroline Van Slambrouck miðvörður Keflavíkur verjast en Barbára Sól Gísladóttir fyrirliði Selfyssinga sækir að þeim í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Selfoss og Keflavík gerðu markalaust jafntefli í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á Selfossi í kvöld. Þrátt fyrir fjórtán markskot og þrettán hornspyrnur á móti varnarsinnuðum Keflvíkingum var Selfyssingum fyrirmunað að skora. 

Leikurinn var eign Selfyssinga frá A-Ö. Keflavík átti ekki markskot í fyrri hálfleik og Selfoss fékk tíu hornspyrnur og tvö dauðafæri en Samantha Leshnak átti góðan leik í marki Keflavíkur og lokaði á allt sem að markinu kom.

Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn á gríðarlegu áhlaupi. Fjöldi fyrirgjafa úr báðum áttum skilaði ekki öðru en þrumuskoti í þverslána frá Barbáru Gísladóttur. Boltinn vildi alls ekki kynnast marknetinu. 

Eftir þetta mikla áhlaup fjaraði nokkuð undan leik Selfoss og þær virtust ekki hafa mikla trú á því að þær myndu ná að klára eina sókn. Þær stýrðu þó leiknum af mikilli festu og þegar Keflavík reyndi að færa sig upp á skaftið í lokin voru Sif Atladóttir og Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir með allt í teskeið í vörn Selfoss.

Markalaust jafntefli þýðir að Selfoss missir toppsætið í hendur Vals en er samt samt sem áður eina taplausa lið deildarinnar.

Selfoss 0:0 Keflavík opna loka
90. mín. Selfoss fær hornspyrnu
mbl.is