Valur burstaði KR

Valskonur fagna Ídu Marín Hermannsdóttur eftir glæsimark hennar í dag.
Valskonur fagna Ídu Marín Hermannsdóttur eftir glæsimark hennar í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valur vann risa 9:1 sigur á KR í Bestu deild kvenna í fót­bolta á Origo-vell­in­um á Hlíðar­enda í kvöld. 

Markaskorarar Vals í dag voru þær Elín Metta Jensen, Ída Marín Hermannsdóttir, Ásdís Karen Halldórsdóttir, Elísa Viðarsdóttir, Cyera Hintzen og Bryndís Arna Níelsdóttir og Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir með tvö hvor. 

Valur fer á toppinn með sigrinum með 12 stig. KR er enn í botnsætinu án stiga. 

Valskonur byrjuðu fyrri hálfleikinn vel og á 15. mínútu kom Þórdís Hrönn Val yfir eftir að boltinn skoppaði fyrir fætur hennar í vítateignum eftir hornspyrnu, Þórdís skaut og boltinn fór inn með viðkomu í varnarmann KR, 1:0 og meistararnir komnir yfir. 

Guðmunda svaraði fyrir KR á 22. mínútu þar sem hún fékk sendingu í gegn frá Marcella Barberic og Guðmunda rendi boltanum framhjá Söndru Sigurðardóttur í markinu, nýliðarnir búnir að jafna 1:1.

Valur skoraði síðan þrjú mörk á fjögurra mínútna kafla á milli 31. og 34. mínútu. Fyrst var það Elín Metta sem dansaði sig í gegnum varnarmenn Val og klobbaði síðan Björk Björnsdóttur í markinu, 2:1. 

Ída Marín Hermannsdóttir skoraði svo glæsimark með skoti langt fyrir utan teig sem fór í slánna og og skoppaði svo innan við marklínuna og út úr markinu. Glæsilegt mark og Valskonur komnar í 3:1. 

Þórdís Hrönn skoraði svo annað mark sitt þegar hún fékk boltann fyrir, fór framhjá Rut Matthíasdóttur og klobbaði Björk, 4:1, þrjú mörk og tveir klobbar. 

Meira var ekki skorað í fyrri hálfleik og fóru því Valskonur með 4:1 forystu til búningsklefa. 

Ásdís Karen kom svo Val í 5:1 á annara mínútu seinni hálfleik þegar hún lék á Björk í markinu og átti laust skot sem KR náði ekki að koma í burtu og boltinn rann í stöngina og í netið. 

Leikurinn róaðist eftir mark Ásdísar og það var ekki fyrr en á 76. mínútu sem næsta mark leiksins kom. Þá fylgdi fyrirliðinn, Elísa, eftir skalla Bryndísar Örnu. Elísa skallaði boltann sjálf í opið markið. 

Bryndís skoraði síðan sjálf mark tíu mínútum síðar þegar hún fékk boltann frá Ásdísi og renndi honum í netið. Bryndís skoraði svo annað mark sitt með hnitmiðuðu skoti fyrir utan teig á 89. Mínútu, 8:1 fyrir Val.

Hintzen kláraði leikinn svo endanlega þegar hún fór framhjá Björk og setti boltann í netið á 90. Mínútu og staðan orðin 9:1! 

Valur sækir Breiðablik heim í næstu umferð, það er stórleikur tveggja liða sem hafa verið að berjast um titilinn síðustu ár. KR fær hina nýliðanna í Aftureldingu í heimsókn í næsta leik sínum og má búast við hörkuleik þar. 

Valur 9:1 KR opna loka
90. mín. Cyera Hintzen (Valur) skorar 9:1 - Valskonur að bursta KR! Hintzen fer framhjá Björk og skorar.
mbl.is