Ægir og Þróttur unnu – Völsungur á toppnum

Sam Hewson, hér í leik með Fylki, skoraði fyrir Þrótt …
Sam Hewson, hér í leik með Fylki, skoraði fyrir Þrótt gegn ÍR í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýliðar Ægis úr Þorlákshöfn fara vel af stað í 2. deild karla í fótbolta en eftir útisigur gegn Reyni í Sandgerði í kvöld, 2:0, eru þeir taplausir og hafa enn ekki fengið á sig mark eftir þrjá leiki. 

Brynjólfur Þór Eyþórsson skoraði fyrir Ægi í fyrri hálfleik og Cristofer Moisés giulltryggði sigurinn með marki úr vítaspyrnu undir lokin. Ægir er með 7 stig eftir þrjá leiki og markatöluna 3:0.

Það eru þó Völsungar frá Húsavík sem eru efstir með 7 stig og betri markatölu þrátt fyrir jafntefli, 1:1,  gegn nýja Austfjarðaliðinu KFA í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði í kvöld. Tómas Atli Björgvinsson kom KFA yfir snemma en þar er um að ræða sameiginlegt lið Leiknis á Fáskrúðsfirði og Fjarðabyggðar. Rafnar Máni Gunnarsson jafnaði fyrir Völsung í seinni hálfleik.

KFA er með tvö stig eftir fyrstu þrjá leikina og hefur gert jafntefli í báðum heimaleikjum sínum.

Þróttur lagði ÍR 2:1 í Reykjavíkurslag í Laugardalnum og er með sex stig en ÍR-ingar töpuðu sínum fyrsta leik og eru með fjögur stig. Úkraínumaðurinn Kostiantyn Pikul skoraði fyrir Þrótt í fyrri hálfleik og aðstoðarþjálfarinn Sam Hewson bætti við marki í seinni hálfleik. Bergvin Fannar Helgason minnkaði muninn fyrir ÍR-inga.

Kristófer sneri leiknum við

Loks fékk Magni sín fyrstu stig með því að sigra Hött/Hugin 3:2 í Boganum á Akureyri. Staða austanliðsins var góð þegar það komst í 2:0 í fyrri hálfleik með mörkum frá Matheus Bettio og Rafael Romao. Kristófer Óskar Óskarsson tók hinsvegar leikinn í sínar hendur. Hann skoraði í uppbótartíma fyrri hálfleiks og bætti svo við tveimur mörkum á fyrstu 15 mínútum síðari hálfleiks. Þrenna á rúmum korteri og hún færði Magna stigin þrjú.

Magni er með þrjú stig en Höttur/Huginn sigur á botninum ásamt Reyni úr Sandgerði, en bæði lið eru stigalaus eftir þrjá leiki.

Tveir síðustu leikir þriðju umferðar fara fram á morgun en þá tekur Víkingur á móti Njarðvík í Ólafsvík og Haukar fá KF í heimsókn á Ásvelli. Njarðvík og Haukar eru bæði með fullt hús, sex stig eftir tvo leiki.

Úrslit í 3. deild karla í kvöld:

Elliði - Vængir Júpíters 0:1
Augnablik - Víðir 2:1
KFG - KH 3:1

mbl.is