HK áfram með fullt hús – Fylkir enn án stiga

Anniina Sankoh úr Fjölni fylgist með Hrafnhildi Árnadóttur samherja sínum …
Anniina Sankoh úr Fjölni fylgist með Hrafnhildi Árnadóttur samherja sínum í baráttu við leikmann Augnabliks í Grafarvoginum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

HK hélt áfram góðri byrjun sinni á tímabilinu í 1. deild kvenna í knattspyrnu, Lengjudeildinni, þegar liðið vann nauman sigur á Tindastóli í kvöld. Augnablik lagði þá Fjölni og Fylkir tapaði fyrir Haukum.

HK tyllti sér á topp deildarinnar með 1:0-sigri á Tindastóli á Sauðárkróksvelli.

Sigurmark leiksins skoraði Ísabella Eva Aradóttir á 34. mínútu.

HK hefur unnið alla þrjá leiki sína til þessa og er nú með níu stig í efsta sætinu.

Í Grafarvoginum kom Sara Montoro Fjölni yfir á 20. mínútu.

Í síðari hálfleik tókst gestunum í Augnabliki hins vegar að snúa taflinu við.

Fyrst skoraði Júlía Katrín Baldvinsdóttir á 71. mínútu og aðeins mínútu síðar skoraði Díana Ásta Guðmundsdóttir sigurmarkið í 2:1-sigri.

Um var að ræða fyrsta sigur Augnabliks í sumar en Fjölnir er enn án stiga á botni deildarinnar.

Haukar unnu þá einnig sinn fyrsta sigur í deildinni í sumar þegar Fylkir kom í heimsókn á Ásvelli.

Vienna Behnke kom Fylki yfir gegn sínum gömlu félögum með marki úr vítaspyrnu strax á fimmtu mínútu leiksins.

Keri Birkenhead sneri hins vegar taflinu við fyrir Hauka með tveimur mörkum skömmu fyrir leikhlé.

Þórey Björk Eyþórsdóttir bætti við þriðja marki Hauka eftir rúmlega klukkutíma leik og tryggði þannig heimakonum 3:1-sigur.

Haukar nældu með sigrinum í sín fyrstu þrjú stig í sumar á meðan Fylkir, sem féll úr efstu deild á síðasta tímabili líkt og Tindastól, hefur tapað öllum þremur leikjum sínum til þessa.

mbl.is