Grátlegt að ná ekki að klára þetta

Elvis Bwomono fær sitt annað gula spjald og þar með …
Elvis Bwomono fær sitt annað gula spjald og þar með rautt í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV tók á móti ÍA í Bestu deild karla í fótbolta í Vestmannaeyjum í dag. Leikurinn var ágætis skemmtun en endaði samt sem áður með markalausu jafntefli, 0:0.

Eiður Aron Sigurbjörnsson, miðvörður og fyrirliði Eyjamanna, var líklega besti leikmaður ÍBV í dag og sá til þess að Skagamenn spurðu ekki mikið af spurningum í leiknum.

„Mér fannst þetta mjög góður leikur, fyrir utan að við skorum ekki mark. Ég veit ekki hvað þeir áttu mikið af færum. Þeir fengu eitt í fyrri hálfleik og ég mann ekki eftir öðru. Þannig heilt yfir er ég mjög sáttur,“ sagði Eiður Aron við mbl.is í leikslok.

Eyjamenn hafa átt erfitt uppdráttar það sem af er móti og fara væntanlega virkilega svekktir á koddann í kvöld. ÍBV var talsvert betri aðilinn í leiknum, jafnvel eftir að hafa lent manni færri um miðjan síðari hálfleik. Þess að auki brenndu þeir af vítaspyrnu í uppbótartíma.

„Mér fannst við stjórna leiknum manni færri. Þegar þeir fengu boltann þá settum við þá í svæðið sem við vildum fá þá í. Við héldum boltanum ágætlega. Þegar þeir svo missa mann af velli þá tökum við yfir leikinn fannst mér. Bara grátlegt að ná ekki að klára þetta,“ sagði Eiður Aron.

ÍBV hefur aðeins skorað sex mörk sem af er móti en aðeins Leiknismenn hafa skorað færri mörk.

„Við erum með fullt af markaskorurum í þessu liði, gæjar sem geta skorað mörk. Andri Rúnar er fæddur markaskorari og óheppinn að skora ekki úr þessu víti. Við höfum engar áhyggjur af markaskorun þó við séum búnir að skora lítið. Þetta kemur allt,“ sagði Eiður Aron aðspurður að því hvort að markaleysið væri vaxandi vandamál hjá liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert