Hættum að gera það sem við gerðum vel í byrjun

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, sagði liðið hafa hætt að gera þá hluti sem það gerði vel í upphafi leiks þegar liðið gerði jafntefli við Leikni úr Reykjavík, 1:1, á Meistaravöllum í 7. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í dag.

KR komst yfir á tíundu mínútu áður en Leiknir jafnaði metin snemma í síðari hálfleik.

„Það sem við gerðum vel í byrjun leiks og skóp markið og þessa sénsa sem við vorum að búa til, við hættum að gera þá hluti og fórum að gera hluti sem við vildum síður.

Svo byrjaði seinni hálfleikur ágætlega þangað til að þeir ná fimm mínútna kafla þar sem þeir þrýsta okkur til baka og skapa sér færi og ná svo að jafna eftir hornspyrnu, úr föstu leikatriði sem ég er mjög ósáttur við, að við skildum ekki verjast því betur.

En eftir það voru þeir bara betra liðið og við áttum ekki nein stór færi, sköpuðum ekki mikið og Leiknir voru að fá miklu betri og hættulegri sénsa. Þeir voru meira með boltann í seinni hálfleik og gerðu miklu betur en við,“ sagði Rúnar í samtali við mbl.is eftir leik í dag.

Kannski smá stress

Spurður hvað hafi valdið því að fjarað hafi undan spilamennsku KR-inga eftir góða byrjun sagði hann:

„Ég veit það ekki. Við fórum kannski að spila einhvern leik sem við ætluðum ekki að spila. Leiknismenn breyttu aðeins um taktík í hálfleik, kannski kom það einhverjum á óvart að svæði þar sem þeir gátu ekki fengið boltann í fyrri hálfleik voru til staðar í þeim síðari.

Svo er kannski smá stress á heimavelli, að vera að flýta sér að reyna að komast yfir aftur í staðinn fyrir að spila einfalt og færa boltann sem var ekkert auðvelt. Vindurinn gerði þetta aðeins erfitt hérna en gerði það fyrir bæði lið. Leiknismönnum tókst vel að ráða við það en okkur tókst það ekki.

Við vorum kannski að leita að allt of erfiðum sendingum í staðinn fyrir að einfalda hlutina. Stundum er allt í lagi að fara bara langt og berjast um seinni boltann, við þurfum að kunna að gera það líka.“

Stefán meiddist

Stefán Árni Geirsson kom inn á sem varamaður í síðari hálfleik en fór aðeins 14 mínútum síðar meiddur af velli.

„Það er sjálfsagt einhver tognun aftan í læri en við verðum að bíða og sjá hversu lengi það verður,“ sagði Rúnar að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is