„Með of gott lið til að vera með svona fá stig“

Úr leiknum á Meistaravöllum í dag. Brynjar Hlöðversson, fyrirliði Leiknis, …
Úr leiknum á Meistaravöllum í dag. Brynjar Hlöðversson, fyrirliði Leiknis, er fyrir miðri mynd númer 11. mbl.is/Óttar Geirsson

Brynjar Hlöðversson, fyrirliði Leiknis úr Reykjavík, telur liðið hafa verið afar nálægt því að vinna sinn fyrsta sigur í sumar í leik þess gegn KR í 7. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í dag, sem lauk með 1:1-jafntefli.

KR leiddi 1:0 í hálfleik þar sem Leiknismenn náðu sér ekki á strik.

„Þetta var leikur tveggja hálfleika, alveg klárlega. Við ætluðum vissulega að liggja til baka í fyrri hálfleik en ekki eins mikið og við gerðum.

Svo þegar við fáum þetta mark í andlitið þá varð það einhvern veginn tilgangslaust að liggja til baka og menn voru ekki alveg með það á hreinu hvort þeir ættu að fara í pressu, setja aðeins meiri kraft og pressu á boltamanninn,“ sagði Brynjar í samtali við mbl.is eftir leik.

Með breyttu leikkerfi og áherslum í síðari hálfleik réðu gestirnir úr Breiðholti hins vegar ferðinni, uppskáru jöfnunarmark og fengu nokkur færi til viðbótar til þess að bæta við marki eða mörkum.

„Við ræddum þetta bara í hálfleik, ákváðum að skipta um leikkerfi og vera miklu djarfari og hugrakkari á boltanum. Taka sénsinn, keyra á þá og setja pressu á þá og gera þá taugaóstyrka og það gekk eftir.

Við hefðum alveg getað stolið þessu og mér fannst við vera líklegri til þess að stela þessu en ég er náttúrlega hlutdrægur. Við vorum fínir í að böðla okkur í þessi dauðafæri en það vantaði bara rétt herslumuninn, bara að tækla boltann yfir línuna,“ bætti hann við.

Leiknir er áfram á botni deildarinnar, með 3 stig eftir sjö leiki og án sigurs, en Brynjar kvaðst þess fullviss að fyrsti sigur sumarsins væri handan við hornið.

„Já alveg klárlega. Hann kemur. Hann er að koma. Mér hefur aldrei liðið illa fyrir leiki.

Þó að við höfum byrjað illa, verið svolítið óheppnir og gert okkur erfitt fyrir þá höfum við ekki misst trúna og við erum með allt of gott lið til þess að vera með svona fá stig. En það er allt í lagi, það er nóg eftir og við sækjum stigin,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert