Örugglega blendnar tilfinningar hjá báðum liðum

Árni Snær Ólafsson ver víti í dag.
Árni Snær Ólafsson ver víti í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Skagamenn lögðu leið sína til Vestmannaeyja þar sem þeir heimsóttu ÍBV í Bestu deild karla í fótbolta dag. Leikurinn endaði með 0:0 jafntefli, þar sem áhorfendur fengu að sjá vítaklúður og rauð spjöld.

Eyjamenn voru betri aðilinn í leiknum og Árni Snær Ólafsson, markmaður ÍA, þurfti að hafa sig allan við að koma í veg fyrir að Eyjamenn kæmust yfir í leiknum, m.a. með því að verja vítaspyrnu í uppbótartíma.

„Það eru örugglega blendnar tilfinningar hjá báðum liðum. Við hefðum átt að nýta okkur það betur að vera einum fleirri þarna fyrr og þeir hefðu átt að nýta þetta víti í restina. Þannig líklega beggja blands hjá báðum,“ sagði Árni Snær.

Eins og Árni Snær kom inn á fengu Eyjamenn rautt spjald í leiknum um miðjan síðari hálfleik, en það hafði lítil áhrif á yfirburði Eyjamanna og Skagamenn náðu lítið sem ekkert að nýta sér liðsmuninn.

„Við áttum að nýta okkur það miklu betur. Hver sem ástæðan fyrir því er. Þeir gerðu kannski bara vel að loka á okkur. Þannig hrós á þá fyrir það og lélegt hjá okkur. Svo voru náttúrulega færi í báðum hálfleikum hjá báðum liðum. Þetta var bara svona baráttuleikur og hvorugt liðið vildi tapa þessu,“ sagði Árni Snær.

Um miðjan síðari hálfleik átti Árni Snær stórkostlega markvörslu þegar Hans Mpongo negldi á markið frá stuttu færi. Í uppbótartíma varði Árni Snær svo vítaspyrnu frá markavélinni Andra Rúnari Bjarnasyni. Skagamenn halda því líklega sáttir heim með stig eftir erfitt eftirmiðdegi á Hásteinsvelli.

„Úr því sem komið var er ég sáttur. Ég hefði náttúrulega viljað fara með þrjú stig. En sáttur að halda hreinu eftir erfiða síðustu þrjá leiki fyrir okkur. Þannig það er mjög sterkt að koma tilbaka úr því. Finnst mér allavega. Það getur vel verið að menn rýni í eitthvað annað, en ég er allavega sáttur að hafa haldið hreinu. Bara böggandi að hafa ekki skora eitt, þá hefði þetta verið helvíti sætt,“ sagði Árni Snær aðspurður að því hvort að Skagamenn færu sáttir heim með stigið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert