Stjarnan lagði KA á Dalvík 

Emil Atlason skoraði enn og aftur í dag.
Emil Atlason skoraði enn og aftur í dag. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

KA og Stjarnan áttust við á Dalvíkurvelli í dag. Leikurinn var í 7. umferð Bestu deildar karla í fótbolta og líklega síðasti deildarleikur KA á Dalvík í bili. Fyrir leik voru KA-menn taplausir en í dag var það Stjarnan sem vann sanngjarnan sigur 2:0. 

Fyrri hálfleikurinn var bráðskemmtilegur og gekk boltinn marka á milli. Framan af var KA það lið sem þótti líklegra til að skora en heimamenn vantaði herslumuninn. Stjarnan efldist smám saman og fékk eitt dauðafæri áður en fyrsta markið kom. Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður skoraði Ísak Andri Sigurgeirsson glæsimark fyrir Stjörnumenn. Þrumuskot hans frá vítateigslínu rataði í slá og inn. KA-menn voru dálítið slegnir út af laginu eftir markið og Stjarnan hafði góð tök á öllu sem gerðist fram að hálfleik, án þess þó að skapa sér fleiri færi.

Framan af í seinni hálfleiknum þá var það Stjarnan sem var meira ógnandi og KA-menn voru hreinlega í vandræðum. Stjörnumönnum virtist bara líða ágætlega með 1:0 stöðu og þeir gáfu engin færi á sér. KA færði sig þó stöðugt upp á skaftið og var í þungri sókn þegar Stjarnan náði skyndisókn og skoraði 2:0. Emil Atlason slapp einn inn fyrir vörn KA og skoraði örugglega fram hjá Steinþóri Má Auðunssyni í marki KA. Emil var ansi langt innan við vörn KA þegar hann fékk boltann og verður gaman að sjá hvort hann hafi verið réttstæður eða ekki. 

KA herti róðurinn enn eftir þetta mark en skipulagðir Stjörnumenn lentu sjaldan í nokkrum vandræðum og lönduðu því 2:0-sigri. 

Dalvíkingarnir þrír í liði KA voru eitthvað taktlausir og náðu sér hvergi á strik. Það sama átti við um fleiri leikmenn. Bestu menn KA í dag voru Dusan Brkovic, Daníel Hafsteinsson og Bryan Van Der Bogaert en hann spilaði bara fyrri hálfleikinn. 

Stjarnan er með skemmtilegt lið og góða blöndu eldri og yngri leikmanna. Óli Valur Ómarsson var flottur í hægri bakverðinum og gaf hvergi eftir í návígjum sínum auk þess sem hann var ógnandi fram á við. Emil Atlason var sprækur fram á við eins og venjulega og Ísak Andri var ávallt hættulegur. Aðalmaðurinn var samt Daníel Laxdal, sem át allt upp framan við varnarlínu Stjörnunnar og verður hann að teljast maður leiksins. 

KA 0:2 Stjarnan opna loka
90. mín. Daníel Hafsteinsson (KA) fær gult spjald Pirringur í Daníel. Hann fer harkalega aftan í Ísak Andra.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert