Eins og rýtingur í magann

Hlynur Atli Magnússon með boltann í kvöld.
Hlynur Atli Magnússon með boltann í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

„Þetta er hrikalega súrt,“ sagði Hlynur Atli Magnússon, fyrirliði Fram, í samtali við mbl.is eftir 3:4-tap fyrir Breiðabliki í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld.

Breiðablik komst í 2:0 og 3:2 en Framarar gerðu vel í að jafna en að lokum skoraði Omar Sowe sigurmarkið skömmu fyrir leikslok.

„Þrjú af þessum mörkum voru rosalega klaufaleg og það var súrt að gera ekki betur. Við vorum að fá færi í stöðunni 3:3. Því miður lenti þetta Blikamegin í dag.

Við komum helvíti sterkir á móti þeim, jöfnum og svo er þetta mest megins stál í stál í dag. Við vorum daufir í byrjun en svo vorum við sterkari eftir það. Það var karakter að ná að jafna og svo jafna aftur en að fá þetta í lokin er eins og rýtingur í magann.“

Framarar spiluðu vel í kvöld og hefðu með smá heppni getað komist í 4:3, frekar en að fá á sig fjórða markið.

„Við þorðum að spila okkar leik og halda boltanum innan liðsins og það er það sem við viljum einkennast af. Það er það sem við vorum að gera í fyrra og við ætlum ekki að breyta út af vananum. Við ætlum að halda í boltann. Við vitum að Blikar eru góðir í því en við ætluðum ekki að leyfa þeim að hafa boltann allan leikinn.“

Fram vann sinn fyrsta sigur í sumar gegn Leikni í síðustu umferð og lék svo vel í kvöld. Hlynur er ánægður með vaxandi spilamennsku Framara.

„Það er búið að segja ýmislegt en við erum staðráðnir í að spila okkar leik og við hlustum ekki á þetta. Það er búið að tala um einhvern kjúklingaskít og kjúklingasalat. Það er okkar af afasanna það. Sigrarnir munu koma og við erum að vaxa,“ sagði Hlynur.  

mbl.is