Sölvi í hópnum hjá Víkingi í kvöld

Sölvi Geir Ottesen gæti spilað með Víkingum á Hlíðarenda í …
Sölvi Geir Ottesen gæti spilað með Víkingum á Hlíðarenda í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Sölvi Geir Ottesen, fyrirliði Íslands- og bikarmeistara Víkings í knattspyrnu á síðasta ári, er í leikmannahópi Víkings fyrir leikinn gegn Val í Bestu deild karla sem fram fer á Hlíðarenda í kvöld.

Sölvi lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil en hefur verið aðstoðarþjálfari Víkings til þessa á tímabilinu.

Víkingar birtu rétt í þessu hópinn fyrir kvöldið og Sölvi Geir er í honum. Sölvi staðfesti jafnframt við mbl.is að hann yrði í hópnum.

Oliver Ekroth meiddist í leik Víkings gegn Breiðabliki á dögunum, Halldór Smári Sigurðsson er áfram fjarverandi vegna meiðsla og þar með er Kyle McLagan eini miðvörðurinn í leikmannahópi meistaranna.

mbl.is