Ótrúlega skemmtilegt mót

Sif Atladóttir og Katrín Ásbjörnsdóttir í leiknum í kvöld.
Sif Atladóttir og Katrín Ásbjörnsdóttir í leiknum í kvöld. Eggert Jóhannesson

Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss, var að nokkuð svekktur þegar blaðamaður mbl talaði við hann eftir 1:3 tap gegn Stjörnunni í Garðabæ í kvöld.

„Það var aðallega fyrri hálfleikurinn sem gekk ekki upp hjá okkur þó svo við fengum á okkur tvö mörk í seinni hálfleiknum þá var fyrri hálfleikurinn okkur erfiður, við vorum mikið að elta þær. 

Við héldum að við værum búin að undirbúa liðið fyrir það hvernig þær hreyfa sig og rótera en við misstum þær og langt frá okkur og vorum passívar í varnarleik okkar. Það er alltaf erfitt þegar maður er að elta.

Við komum mjög öflugar inn í seinni hálfleikinn, jöfnum mjög fljótt og fáum svo dauðafæri einn á einn á móti markmanni fljótlega eftir. Svo þegar þær þrönga inn 2:1 marki þá þurftum við að færa okkur ofar til að reyna að jafna og þá opnuðumst við.“

Björn hafði einnig jákvæða hluti að segja um leikinn, þá aðallega ungstirnin þær Katrínu Ágústsdóttur og Auði Helgu Halldórsdóttur sem byrjuðu báðar í dag.

„Það er hægt að taka eitthvað jákvætt úr nánast öllum leikjum. Við erum með tvær stelpur sem eru fæddar 2005 sem byrjuðu sinn fyrsta leik og stóðu sig með príði. Svo kom hún Embla Dís Gunnarsdóttir einnig inn á í sínum fyrsta Íslandsmótsleik. Mér fannst kominn tími á að blóðga þær aðeins þar sem þær eru búnar að standa sig vel á æfingum og með öðrum flokki. Ef maður ætlar að horfa til framtíðar þá þarf maður að leyfa þessum stelpum að spreyta sig og gefa þeim reynslu.“

Skoðun Björns á mótinu hingað til:

„Mér finnst þetta alveg ótrúlega skemmtilegt mót. Ég er mjög ánægður með hvernig stelpurnar hafa brugðist við öllum breytingum á því hvernig við erum að nálgast leikinn almennt. Næsti leikur er gegn Aftureldingu í bikarnum sem verður fjör. Svo er það KR í deildinni sem er hægt og bítandi að verða að betra liði. Fullt af verkefnum framundan og ótrúlega þétt leikjaprógramm sem við finnum fyrir þar sem við erum að missa leikmenn í smá hnjask en það er bara partur af þessu, áfram gakk,“ sagði Björn að lokum. 

Björn Sigurbjörnsson
Björn Sigurbjörnsson Ljósmynd/Kristinn Steinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert