Tap verður varla sárara en þetta

Hanna Kallmaier og Haley Thomas hafa gætur á Söndru Maríu …
Hanna Kallmaier og Haley Thomas hafa gætur á Söndru Maríu Jessen í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Sandra María Jessen skoraði tvö fyrstu mörk leiksins fyrir Þór/KA þegar liðið heimsótti ÍBV á Hásteinsvöllinn í sjöttu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta í kvöld.

Gleðilegt var að sjá Söndru Maríu aftur á vellinum eftir barneignarfrí en Sandra María spilaði síðast í efstu deild á Íslandi árið 2018 og var þá með 14 mörk í 18 leikjum.

„Það er erfitt að hugsa um sjálfan sig eftir svona leik en að sjálfsögðu vill maður gera vel og skora mörk sem er jákvætt en maður getur ekki verið sáttur eftir svona leik. Ég ætla að byrja á sjálfri mér, svo verðum við liðið líka að pæla í okkur og gera betur, hver og ein og sem lið.

Þjálfararnir settust niður með hverjum og einum leikmanni fyrir tímabilið og settu niður markmið. Eitt af þeim var markafjöldi hjá mér. Ég er náttúrlega að koma inn í þetta aftur eftir barnsburð, þannig að maður þarf að vera raunsær, en á sama tíma að setja kröfur á sig. Því setti ég mér það markmið að ná níu mörkum í sumar. Ég vona og hef trú á því að ég muni ná því," sagði Sandra María við mbl.is eftir leikinn.

Sandra María er á góðri leið með það markmið, enda komin með fjögur mörk í sex fyrstu leikjum sumarsins.

Spilamennska Þórs/KA gekk út að það í kvöld að leyfa hinu liðinu að vera með boltann, liggja í vörn og beita svo skyndisóknum. Leikplan sem gekk ágætlega upp fyrir þær í fyrri hálfleik þar sem að þær voru að vinna 3:0 eftir aðeins hálftíma leik.

„Við erum góðar í því að spila svona, skorum mikið af mörkum og með þessu reynum við að nýta okkar styrkleika. Höfum verið að fá inn mörk með þessu móti, fengum fjögur mörk í dag en það náttúrulega telur ekki ef þú færð síðan fimm mörk á þig“

Eftir að hafa komist 3:0 yfir, fór hinsvegar að halla undir fæti og lokatölur leiksins urðu 5:4 ÍBV í vil.

„Það er hægt að segja ýmislegt um þennan leik, það er hægt að kenna veðrinu, ferðalaginu, rauða spjaldinu, dómaranum og öllum um þetta. Þegar upp er staðið er þetta undir okkur komið og ekki boðlegt að tapa leik þar sem þú ert komin 3:0 yfir. Þetta á bara ekki að gerast og tap verður varla sárara en þetta.

Við hefðum viljað taka öll þrjú stigin eftir að hafa komist í 3:0, fyrirfram hefði eitt stig alveg verið gott en maður vill náttúrulega alltaf fá þrjú stig, þannig að já, við erum hundfúlar. Við förum svekktar heim, maður leyfir sér að vera hundfúll í kvöld en svo á morgun einbeitum við okkur að bikarleiknum á laugardaginn," sagði Sandra María.

Þór/KA tekur á móti Haukum laugardaginn 28.maí næstkomandi í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins.

mbl.is