Vissi ekki hvernig ég átti að haga mér

Ragna Sara Magnúsdóttir fremst í flokki eftir að hafa jafnað …
Ragna Sara Magnúsdóttir fremst í flokki eftir að hafa jafnað metin í 3:3. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Ragna Sara Magnúsdóttir var í byrjunarliði ÍBV í kvöld, þegar liðið tók á móti Þór/KA á Hásteinsvelli í sjöttu umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu. Ævintýralegar lokatölur en leikurinn endaði 5:4 ÍBV í vil.

Þrátt fyrir að vera meira með boltann, voru Eyjakonur 0:3 undir eftir aðeins hálftíma leik og útlitið svart á tímabili.

„Þær fá þrjú færi og skora úr þeim öllum. Ég held það hafi vantað upp á samskiptin og það var of auðvelt að stinga í gegnum okkur. Auðveld mörk sem við eigum að geta komið í veg fyrir," sagði Ragna við mbl.is eftir leikinn.

Ragna Sara, sem spilaði sem miðvörður í liði ÍBV í kvöld, skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið í meistaraflokki þegar hún jafnaði leika í 3:3.

„Þetta var bara geggjað. Ég vissi ekki hvernig ég átti að haga mér, þetta er ekki neitt sem ég bjóst við fyrir leik,“ sagði Ragna Sara um markið.

Eftir að hafa lent 0:3 undir eftir 30 mínútur náðu Eyjakonur að klóra sig inn í leikinn aftur í lok fyrri hálfleiks og skoruðu tvö mörk áður en að flautað var til hálfleiks. Eitthvað hefur hálfleiksræðan virkað, því Eyjakonur komu öflugar inn í seinni hálfeik.

„Við ákváðum bara að þetta væri ekki nógu gott hjá okkur, við ætluðum að koma til baka og koma inn einu marki.. þá væri þetta orðið jafnt aftur“.

Enduðu svo leikar á sigri ÍBV í níu marka leik. Aðspurð hvort Rögnu Söru fyndust úrslitin í samræmi við gang leiksins sagði hún:

„Við byrjuðum mjög illa, fengum þrjú mörk á okkur en sýndum svo karakter og komum til baka, þannig að mér fannst þetta mjög verðskuldað hjá okkur“.

Eftir leikinn eru Eyjakonur komnar með tíu stig og sinn fyrsta sigur á heimavelli í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert