Afar óvænt úrslit á Dalvík - framlenging og vítakeppni

Frá leik HK og Gróttu í kvöld.
Frá leik HK og Gróttu í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dalvík/Reynir úr 3. deild gerði sér lítið fyrir og sló 1. deildarlið Þórs úr leik í grannaslag í 3. umferð Mjólkurbikars karla í fótbolta í kvöld. Dalvík/Reynir komst í 1:0 með sjálfsmarki á 28. mínútu og Jóhann Örn Sigurjónsson gulltryggði óvæntan sigur á 79. mínútu.

Í Kórnum hafði HK betur gegn Gróttu á heimavelli, 3:1. Bæði lið leika í 1. deild. Stefán Ingi Sigurðarson kom HK í 2:0 með mörkum á 24. og 53. mínútu en Sigurður Hrannar Þorsteinsson minnkaði muninn í uppbótartíma. Þrátt fyrir það var enn tími fyrir Atla Arnarson að gulltryggja 3:1-sigur HK á fjórðu mínútu uppbótartímans.

Afturelding er komin áfram eftir 3:2-útisigur á Vestra í framlengdum 1. deildarslag. Aron Elí Sævarsson kom Aftureldingu yfir á 47. mínútu en Vladimir Tufegdzic tryggði Vestra framlengingu með jöfnunarmarki á lokamínútunni. Tufegdzic var aftur á ferðinni snemma í framlengingunni er hann kom Vestra yfir. Sindri Sigurjónsson jafnaði hinsvegar á 109. mínútu og Andi Hoti gerði sigurmarkið á 116. mínútu.

Selfoss úr 1. deild þurfti vítakeppni til að slá Magna úr 2. deild úr leik á heimavelli. Elfar Ísak Halldórsson kom Selfossi yfir á lokamínútu fyrri hálfleiks en Angantýr Máni Gautason jafnaði á lokamínútu seinni hálfleiks og var ekkert skorað í framlengingunni. Að lokum skoraði Selfoss úr öllum fimm spyrnum sínum í vítakeppninni gegn þremur hjá Magna.

Þá vann ÍR úr 2. deild sterkan 2:1-útisigur á Grindavík úr 1. deild. Bergvin Fannar Helgason kom ÍR yfir á 24. mínútu en Dagur Ingi Hammer Gunnarsson jafnaði á 52. mínútu. ÍR átti hinsvegar lokaorðið því Guðjón Máni Magnússon skoraði sigurmarkið á 55. mínútu.

Hvíti riddarinn úr 4. deild stóð ágætlega í Kórdrengjum úr 1. deild í Mosfellsbæ en að lokum unnu Kórdrengir 2:0-sigur. Arnleifur Hjörleifsson skoraði fyrra markið á 58. mínútu og Þórir Rafn Þórisson annað markið á 84. mínútu.  

mbl.is