Óheppin ég að vera varnarmaður

Arna Sif Ásgrímsdóttir, til hægri, reyndist hetja Vals gegn Breiðabliki …
Arna Sif Ásgrímsdóttir, til hægri, reyndist hetja Vals gegn Breiðabliki í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er hrikalega sátt með þennan sigur enda komum við hingað til þess að vinna leikinn og það tókst,“ sagði Arna Sif Ásgrímsdóttir, varnarmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 1:0-sigur liðsins gegn Breiðabliki í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í 6. umferð deildarinnar á Kópavogsvelli í Kópavogi í kvöld.

„Við vorum í smá basli með þær í fyrri hálfleik en við fórum vel yfir hlutina í hálfleik og þéttum raðirnar vel í síðari hálfleik. Mér fannst þær ekki skapa sér mikið af opnum marktækifærum þó þær hafi vissulega komið sér í ágætis stöður og mér fannst við gera þetta mjög vel heilt yfir.

Persónulega leið mér mjög vel á vellinum og ég er nokkuð sátt með mína frammistöðu. Hvort þetta hafi verið minn besti leikur í sumar skal látið ósagt en ég er allavega sátt. Það er alltaf gaman að skora og í þetta skiptið sogaðist boltinn bara á kollinn á mér og ég stangaði hann í netið, þetta var ekki mikið flóknara en það,“ sagði Arna Sif.

Elín Metta Jensen í baráttunni á Kópavogsvelli.
Elín Metta Jensen í baráttunni á Kópavogsvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frábært umhverfi á Hlíðarenda

Arna Sif lék síðast með Val árið 2017 en þá hafnaði liðið í þriðja sæti deildarinnar.

„Umhverfið á Hlíðarenda er talsvert breytt frá því ég var hérna síðast. Það var ákveðin uppbygging í gangi þegar ég spilaði hérna árið 2017 en núna eru kröfurnar og samkeppnin í hópnum mun meira. Maður þarf að vera á tánum á öllum æfingum og það er ekkert gefins í þessu.

Við sem lið erum hægt og rólega að finna taktinn og ég er þokkalega sátt með þessa byrjun á mótinu. Það hefur verið smá óstöðugleiki í þessum fyrstu leikjum en mér finnst við vera á réttri leið og liðið er hægt og rólega að spila sig saman sem er bara jákvætt.“

Elísa Viðarsdóttir og Sandra Sigurðardóttir fagna í leikslok.
Elísa Viðarsdóttir og Sandra Sigurðardóttir fagna í leikslok. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á ótrúlega góðum stað

Akureyringurinn var hluti af landsliðshópi Íslands sem fór í lokakeppni EM í Hollandi árið 2017.

„Það mætti alveg segja sem svo að ég sé óheppin að vera varnarmaður því við eigum svo marga frábæra miðverði í dag en auðvitað langar mig á EM með landsliðinu í sumar.

Ég er hins vegar fyrst og fremst að hugsa um mig og standa mig vel fyrir Val. Ég er á ótrúlega góðum stað, andlega og líkamlega, svo er það bara bónus ef landsliðskallið kemur,“ bætti Arna Sif við í samtali við mbl.is.

Valskonur fögnuðu vel og innilega í leikslok.
Valskonur fögnuðu vel og innilega í leikslok. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is