Fimm í banni í næstu umferð

Elvis Bwomono fékk að líta rauða spjaldið gegn ÍA um …
Elvis Bwomono fékk að líta rauða spjaldið gegn ÍA um síðustu helgi. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Aga- og úrskurðarnefnd Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, kom saman í gær. Þar voru fjórir leikmenn í Bestu deild karla úrskurðaðir í eins leiks bann og einn leikmaður Bestu deildar kvenna.

Jón Gísli Eyland Gíslason, leikmaður ÍA, verður í leikbanni eftir að hann fékk rautt spjald gegn ÍBV í 7. umferð og verður því ekki með liðinu gegn Keflavík á sunnudag.

Elvis Bwomono, leikmaður ÍBV, fékk sömuleiðis rautt spjald í leiknum gegn ÍA og verður því í banni í leik Eyjamanna gegn Stjörnunni á sunnudag.

Tveir leikmenn Fram, Alex Freyr Elísson og Tryggvi Snær Geirsson, voru þá báðir úrskurðaðir í eins leiks bann eftir að hafa fengið alls fjórar áminningar í deildinni til þessa.

Þeir verða því ekki með liðinu þegar það mætir Val á sunnudaginn, en þá fer fyrsti leikur Framara á nýjum velli sínum í Úlfarársdal fram.

Saga Líf Sigurðardóttir, leikmaður Þórs/KA, fékk rautt spjald í ótrúlegu 4:5-tapi liðsins gegn ÍBV á mánudag og var því úrskurðuð í eins leiks bann. Missir hún þar með af leik Norðankvenna gegn Keflavík eftir slétta viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert