KR vann úrvalsdeildarslaginn í Garðabæ

Aron Þórður Albertsson fagnar þriðja marki KR-inga.
Aron Þórður Albertsson fagnar þriðja marki KR-inga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

KR er komið í 16-liða úrslit Mjólkurbikars karla í fótbolta eftir 3:0-útisigur á Stjörnunni í 3. umferðinni í kvöld.

KR-ingar byrjuðu mun betur og færeyski landsliðsmaðurinn Hallur Hansson skoraði fyrsta markið strax á 5. mínútu. KR fékk nokkur fín færi til að bæta við fleiri mörkum en Haraldur Björnsson varði nokkrum sinnum vel í marki Stjörnunnar.

Loksins þegar Stjarnan var að komast betur inn í leikinn bætti Atli Sigurjónsson við öðru marki KR á 31. mínútu er hann skaut í Jóhann Árna Gunnarsson og í netið eftir langan sprett hjá Aroni Kristófer Lárussyni.

Stjörnunni gekk illa að skapa færi eftir það á meðan KR-ingar færðu sig aftar á völlinn og voru sáttir við stöðuna. Var munurinn því tvö mörk í hálfleik, 2:0.

Emil Atlason fékk þrjú góð færi til að minnka muninn fyrir Stjörnuna á fyrsta kortérinu í seinni hálfleik. Í því fyrsta skallaði hann framhjá úr markteignum, í öðru hitti hann ekki boltann í dauðafæri og svo skaut hann nokkuð beint á Beiti rétt utan teigs.

Kjartan Henry Finnbogason fékk svo dauðafæri til að koma KR í 3:0 á 64. mínútu þegar hann slapp einn gegn Haraldi í markinu en Kjartan missti boltann klaufalega aftur fyrir endamörk þegar hann reyndi að leika á markvörðinn.

KR-ingar skoruðu hinsvegar þriðja markið á 84. mínútu þegar Aron Þórður Albertsson slapp í gegn eftir sendingu frá Theódóri Elmari Bjarnasyni og skoraði, aðeins mínútu eftir að hann kom inn á sem varamaður. Var eftirleikurinn þægilegur fyrir KR.

Stjarnan 0:3 KR opna loka
90. mín. Emil Atlason (Stjarnan) á skot í þverslá Færið þröngt en Emil gerir vel í að ná fínu skoti. Óheppinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert