Því miður ekki alltaf raunin að allir spili allar mínútur

Andri Lucas Guðjohnsen og Mikael Egill Ellertsson.
Andri Lucas Guðjohnsen og Mikael Egill Ellertsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikael Egill Ellertsson og Andri Lucas Guðjohnsen, tvítugir sóknarmenn sem voru báðir valdir í A-landsliðshóp karla í knattspyrnu í dag, hafa ekkert spilað meistaraflokksbolta að undanförnu.

Mikael Egill er á mála hjá ítalska B-deildarliðinu SPAL og Andri Lucas hjá varaliði Real Madríd, sem leikur í C-deild þar í landi.

Á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ var Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari spurður hvort hann hefði áhyggjur af skorti á leikformi hjá þeim tveimur.

„Nei, Mikael Egill hefur verið að spila mjög mikið með Primavera-liðinu [varaliði SPAL] úti og við erum búnir að sjá alla þá leiki. Hann er búinn að ná sér mjög vel eftir brotið í desember síðastliðnum,“ sagði hann um Mikael Egil, sem fótbrotnaði í síðasta leik aðalliðs SPAL fyrir áramót.

„Andri Lucas hefur hins vegar ekki verið að spila mikið frá því í mars,“ sagði Arnar Þór um Andra Lucas og útskýrði val sitt svo nánar:

„Þetta eru alltaf ákvarðanir sem þarf að taka, við tökum til dæmis þrjá sentera núna í hópinn sem eru allir mismunandi tegundir af senterum, við erum líka að kíkja á það.

Við horfum alltaf til þess að við viljum alltaf helst að allir leikmenn séu að spila allar mínútur en það er því miður ekki alltaf raunin.

Hólmbert Aron Friðjónsson, Sveinn Aron Guðjohnsen og Andri Lucas eru einu þrír hreinræktuðu framherjarnir í hópnum að þessu sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina