Óskar Hrafn orðaður við starf í Danmörku

Óskar Hrafn Þorvaldsson
Óskar Hrafn Þorvaldsson Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari karlaliðs Breiðabliks í fótbolta, er einn af þeim þjálfurum sem koma til greina sem eftirmaður David Nielsen hjá karlaliði AGF í Danmörku.

Nordicbet.dk nefnir Óskar sem mögulegan næsta þjálfara hjá AGF en þeir Jimmy Thelin, Erling Moe, Hjalte Bo Nörregaard og Poya Asbaghi eru einnig orðaðir við starfið hjá vefsíðunni. 

Óskar hefur náð eftirtektarverðum árangri á þjálfaraferli sínum á Íslandi. Hann fór með Gróttu úr 2. deild og upp í efstu deild og var svo hársbreidd frá því að gera Breiðablik að Íslandsmeistara á síðustu leiktíð. Breiðablik er með fullt hús stiga á toppi Bestu deildarinnar sem stendur.

Mikael Anderson leikur með AGF og Jón Dagur Þorsteinsson er á förum frá félaginu.

mbl.is