Sló met á sama degi með fyrri methafann í liði mótherjanna

Ásgeir Galdur Guðmundsson skrifaði undir þriggja ára samning við Köbenhavn …
Ásgeir Galdur Guðmundsson skrifaði undir þriggja ára samning við Köbenhavn í febrúar og gengur til liðs við félagið í júlí. Ljósmynd/FC Köbenhavn

Galdur Guðmundsson, 16 ára knattspyrnumaður úr Breiðabliki, komst í metabækur Kópavogsliðsins í gærkvöld þegar hann skoraði glæsilegt mark í stórsigri á Val, 6:2, í 32ja liða úrslitum Mjólkurbikarsins á Kópavogsvelli.

Galdur varð þar með yngsti markaskorari í mótsleik með Breiðabliki, 16 ára og sex vikna gamall.

Galdur Guðmundsson skoraði fallegt mark í leiknum við Val.
Galdur Guðmundsson skoraði fallegt mark í leiknum við Val. Ljósmynd/Breiðablik

Með því sló hann sex ára  gamalt með Ágúst Eðvalds Hlynssonar sem skoraði 16 ára og tveggja mánaða gamall fyrir Breiðablik í bikarleik gegn 4. deildarliðinu Kríu árið 2016.

Það gerðist reyndar á nákvæmlega sama degi, 26. maí, og til að bæta um betur þá var Ágúst Eðvald í liði Vals í gær, og kom inn á sem varamaður eins og Galdur. Hann var inni á vellinum þegar Galdur sló met hans.

Galdur hefur vakið talsverða athygli en hann skoraði í öllum þremur leikjum Íslands á U16 ára móti á vegum UEFA í Svíþjóð fyrr í vor en þar vann Ísland bæði Svía og Svisslendinga og stóð uppi sem sigurvegari á mótinu. Hann verður ekki lengi í viðbót í röðum Breiðabliks því Galdur gengur til liðs við nýkrýnda Danmerkurmeistara FC Köbenhavn þann 1. júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert