Víkingar mæta Levadia eða La Fiorita

Víkingar leika á heimavelli í forkeppninni fyrir Meistaradeildina.
Víkingar leika á heimavelli í forkeppninni fyrir Meistaradeildina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslands- og bikarmeistarar Víkings munu mæta annaðhvort Levadia Tallinn frá Eistlandi eða La Fiorita frá San Marínó í fyrri umferð forkeppninnar fyrir Meistaradeild karla í fótbolta.

Íslandsmeistarar þurfa í fyrsta skipti að fara í forkeppnina vegna slæmrar stöðu Íslands á styrkleikalistanum en þar leika fjögur lið um eitt sæti í fyrstu umferð undankeppninnar.

Forkeppnin verður leikin hér á landi dagana 21. og 24. júní, með þátttöku meistaraliða Íslands, Eistlands, Andorra og San Marínó.

Nú liggur fyrir hver meistaralið hinna þjóðanna eru og liðunum fjórum hefur verið skipt í tvo flokka fyrir dráttinn sem fer fram 7. júní.

Þar er ljóst að Víkingar munu mæta annaðhvort Levadia eða La Fiorita í fyrri umferðinni 21. júní. Inter Club d'Escaldes, meistaralið Andorra, mætir hinu liðinu.

Sigurliðin í þessum leikjum mætast svo í úrslitaleik á Víkingsvellinum 24. júní.

mbl.is