Síðustu leikir fyrir sautján daga frí

Leiknir R. og Breiðablik mætast í Breiðholtinu í kvöld.
Leiknir R. og Breiðablik mætast í Breiðholtinu í kvöld. Ljósmynd/Jón Helgi Pálmason

Áttunda umferðin í Bestu deild karla í fótbolta er öll leikin í dag og þetta eru jafnframt síðustu leikirnir í deildinni til 15. júní. Hún fer sem sagt í 17 daga frí vegna landsleikja eftir kvöldið í kvöld.

Þegar horft er á stöðu liðanna í deildinni má segja að viðureign Víkings og KA í Fossvoginum klukkan 16.30 sé stórleikur umferðarinnar. KA mætir til leiks í öðru sæti með 16 stig en Íslands- og bikarmeistarar Víkings eru skammt undan með 13 stig í fimmta sætinu.

Breiðablik sem hefur unnið alla sjö leiki sína gæti hæglega fengið tækifæri til að auka við forskotið. Blikar sem eru með 21 stig, fimm stigum meira en KA, sækja heim botnlið Leiknis í Reykjavík sem er aðeins með 3 stig og án sigurs í neðsta sætinu. Leikurinn í Efra-Breiðholti hefst klukkan 19.15.

Grannaslagur umferðarinnar verður háður í Safamýri en þar verður flautað fyrst til leiks klukkan 16.00 í viðureign Fram og Vals. Valsmenn hafa tapað þremur leikjum í röð í deild og bikar en eru með 13 stig í fjórða sætinu. Nýliðar Fram hafa sótt  sig í síðustu leikjum en eru aðeins með 5 stig í tíunda sæti deildarinnar.

Stjarnan hefur komið nokkuð á óvart og er með 14 stig í þriðja sæti deildarinnar en Garðabæjarliðið fær nýliða ÍBV í heimsókn klukkan 17. Eyjamönnum hefur ekkert gengið og eru án sigurs með 3 stig í ellefta og næstneðsta sætinu.

Á Akranesi mætast ÍA og Keflavík klukkan 17. Þessi lið voru mjög áþekk á síðasta tímabili og lítið skilur þau að í ár því Keflavík er með 7 stig í áttunda sætinu og ÍA er með 6 stig í níunda sætinu. Nái annað liðið að knýja fram sigur gæti það komið sér í betri fjarlægð frá fallsætum deildarinnar.

Loks eru það FH og KR sem eigast við í Kaplakrika klukkan 19.15. Þessi félög hafa háð marga stórleiki á undanförnum árum og verið í baráttu um titla en nú sitja þau aðeins í sjötta og sjöunda sætinu. KR með 11 stig og FH með aðeins 7 stig.

mbl.is