Jafnt í mögnuðum leik í Vesturbænum

Kaj Leo í Bartalsstovu sækir aftan að Kristni Jónssyni í …
Kaj Leo í Bartalsstovu sækir aftan að Kristni Jónssyni í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Gömlu stórveldin KR og ÍA skildu jöfn, 3:3, í stórskemmtilegum knattspyrnuleik í 9. umferð Bestu deildar karla í kvöld. KR tókst að bjarga stigi með marki í uppbótartíma.

Fyrri hálfleikur var opinn og skemmtilegur og voru það gestirnir af Akranes semi tóku forystuna á 17. mínútu.

Gísli Laxdal Unnarsson og Kennie Chopart áttust þá við þar sem sá fyrrnefndi slæmdi höndinni í andlit Danans en ekkert var þó dæmt.

Gísli lék áfram með boltann og inn í vítateig, lagði boltann snyrtilega til hliðar á Steinar Þorsteinsson sem var einn á móti Beiti Ólafssyni í marki KR en í stað þess að skjóta lagði hann boltann til hliðar á Eyþór Aron Wöhler sem stýrði honum í autt netið.

Skömmu síðar vildu Skagamenn fá vítaspyrnu þegar Kristinn Jónsson sparkaði Steinar niður innan vítateigs en ekkert var dæmt.

Á 27. mínútu jöfnuðu heimamenn  metin. Theodór Elmar Bjarnason fór þá vel með boltann á hægri kantinum, lagði hann út á Atla Sigurjónsson sem átti laglega fyrirgjöf á nærstöngina þar sem Ægir Jarl Jónasson beið átekta og skallaði boltann af krafti upp í nærhornið.

Eftir hálftíma leik slapp Atli svo einn í gegn, lék með boltann inn í vítateig, Oliver Stefánsson renndi sér í Atla sem féll við en engin vítaspyrna var þó dæmd.

Áfram fengu bæði lið prýðis tækifæri til þess að skora en fleiri urðu mörkin þó ekki í fyrri hálfleik og staðan því 1:1 í leikhléi.

Strax í upphafi síðari hálfleiks náði KR forystunni. Þorsteinn Már Ragnarsson renndir boltanum þá á Atla, hann lék með boltann inn í vítateig, fór afskaplega illa með Johannes Björn Vall og þrumaði svo boltanum í nærhornið.

Eftir tæplega klukkutíma leik fékk Ægir Jarl dauðafæri eftir laglegan undirbúning Atla og Theodórs Elmars Bjarnasonar en innanfótar skot hans úr vítateignum var slakt og fór framhjá markinu.

Strax í næstu sókn átti Jón Gísli Eyland Gíslason frábært vinstri fótar skot fyrir utan teig sem small í þverslánni.

Á 67. mínútu jöfnuðu Skagamenn metin. Eyþór Aron fékk þá sendingu í gegn og var kominn upp að endamörkum, sendi fastan bolta fyrir með jörðinni þar sem Steinar, sem lék sömuleiðis afar vel, var mættur á nærstöngina og skaut í nærhornið þar sem Beitir varði boltann í netið.

Sjö mínútum síðar kom Eyþór Aron Skagamönnum yfir. Gísli kom sér þá í góða stöðu á vinstri kantinum, gaf fasta sendingu þvert fyrir markið þar sem Eyþór Aron stýrði boltanum í netið af stuttu færi.

Skagamenn virtust vera að sigla fræknum útisigri í höfn en allt kom fyrir ekki þar sem Alexander Davey í vörn ÍA varð fyrir því óláni að skalla boltann í eigið net í uppbótartíma venjulegs leiktíma.

Skagamenn vildu fá brot á KR þar sem Finnur Tómas Pálmason, sem var í baráttu við Davey, fór með takkana í andlit Árna Snæs Ólafssonar í marki ÍA en svo virtist sem það hafi gerst eftir eða í þann mund sem Davey var búinn að skora sjálfsmarkið.

Niðurstaðan því 3:3-jafntefli í frábærum leik.

Bæði lið halda kyrru fyrir í sætunum sem þau voru í fyrir leikinn; KR er áfram í 5. sæti og ÍA áfram í 10. sæti.

KR 3:3 ÍA opna loka
90. mín. Leik lokið +9 Mögnuðum knattspyrnuleik lýkur með 3:3-jafntefli!
mbl.is