Magnaður fyrsti leikur á nýja vellinum

Guðmundur Magnússon jafnar í 1:1.
Guðmundur Magnússon jafnar í 1:1. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Fram og ÍBV skildu jöfn, 3:3, í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld. Leikurinn var sá fyrsti sem karlalið Fram leikur á glæsilegum nýjum heimavelli sínum í Úlfarsárdal. Óhætt er að segja að áhorfendur, sér í lagi þeir hlutlausu hafi fengið talsvert fyrir sinn snúð. 

Leikurinn byrjaði með látum því Andri Rúnar Bjarnason náði í víti fyrir Eyjamenn strax á 1. mínútu sem hann skoraði úr. Guðmundur Magnússon jafnaði strax í næstu sókn Framara og var staðan 1:1 eftir þrjár mínútur.

Andri Rúnar kom ÍBV aftur yfir á 22. mínútu en aftur svaraði Guðmundur Magnússon, nú á 38. mínútu með marki úr víti. Staðan eftir fjörugan fyrri hálfleik var því 2:2. 

Guðmundur fullkomnaði þrennuna á 50. mínútu er hann kom Fram yfir í fyrsta skipti, bæði í leiknum og á nýja heimavellinum. Ellefu mínútum síðar jafnaði Alex Freyr Hilmarsson og þar við sat, þrátt fyrir að bæði lið fengu fín færi til þess að ná inn sigurmarkinu. Þá hitnaði heldur betur í kolunum í restina, en varamarkvörður Framara var rekinn af bekknum á 81. mínútu. 

Fram er áfram í áttunda sæti, nú með tíu stig, og ÍBV sem fyrr á botninum með fjögur. Ljóst er að bæði lið vilja fara að sækja fleiri sigra til að klifra upp töfluna. Eitt er þó víst, ef að liðin halda áfram að spila eins og þau gerðu í kvöld, að þá geta stigin ekki verið langt undan. 

Fram 3:3 ÍBV opna loka
90. mín. Alex Freyr Hilmarsson (ÍBV) fer af velli +2
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert