Nítján ára með þrennu í toppslagnum

Úlfur Ágúst Björnsson skoraði þrennu.
Úlfur Ágúst Björnsson skoraði þrennu. Ljósmynd/Njarðvík

Njarðvík valtaði yfir Ægi, 6:0, á heimavelli í toppslag 2. deildar karla í fótbolta í kvöld. Fyrir leik voru liðin jöfn í tveimur efstu sætunum með 19 stig og áttu flestir von á spennandi leik.

Njarðvíkingar voru hinsvegar óstöðvandi og sérstaklega Úlfur Ágúst Björnsson en hann gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í fyrri hálfleik. Úlfur er aðeins nítján ára og lánsmaður frá FH. Kenneth Hogg komst einnig á blað í hálfleiknum og var staðan í leikhléi 4:0.

Marc McAusland bætti við fimmta marki Njarðvíkur á 69. mínútu og Oumar Diouck gulltryggði risasigur Njarðvíkinga á 72. mínútu. Njarðvík er nú með þriggja stiga forskot á toppnum en Ægismenn eru áfram í öðru sæti.

Haukar fóru upp í 14 stig og í fjórða sæti með öruggum 3:0-útisigri á ÍR. Eftir markalausan fyrri hálfleik skoruðu Anton Freyr Hauks Guðlaugsson, Gísli Þröstur Kristjánsson og Aron Skúli Brynjarsson allir í seinni hálfleik. ÍR er í sjötta sæti með 11 stig.

mbl.is