Birta var sú besta í Bestu deildinni í júní

Birta Georgsdóttir (t.v.) í leik með Breiðabliki gegn Aftureldingu.
Birta Georgsdóttir (t.v.) í leik með Breiðabliki gegn Aftureldingu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Birta Georgsdóttir kantmaður úr Breiðabliki var besti leikmaðurinn í Bestu deild kvenna í fótbolta í júnímánuði samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins, M-gjöfinni.

Birta var ein af þremur leikmönnum í deildinni sem fengu samanlagt fimm M í fjórum leikjum sinna liða í júní en hinar voru Betsy Hassett, nýsjálenska landsliðskonan í Stjörnunni, og Olga Sevcova, lettneska landsliðskonan í ÍBV.

Birta lét mikið að sér kveða í öllum fjórum leikjum Breiðabliks, sem var eina liðið sem fékk fullt hús, tólf stig, í júnímánuði. Hún fékk einu sinni tvö M, þegar hún lagði upp þrjú mörk og skoraði eitt sjálf í 6:1-sigri gegn Aftureldingu, og fékk eitt M fyrir hvern hinna þriggja leikjanna, sigurleiki gegn Selfossi, Þrótti og Þór/KA.

Hún er ein af þremur leikmönnum Breiðabliks sem eru í ellefu manna úrvalsliði Morgunblaðsins í júní, sem sjá má í heild sinni í Morgunblaðinu í dag og sú fjórða er í hópi varamanna.

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag þar sem úrvalslið júnímánaðar er birt ásamt viðtali við Birtu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert