Ekki í boði að slaka á

Birta Georgsdóttir (t.h.) í leik með Breiðabliki gegn Stjörnunni í …
Birta Georgsdóttir (t.h.) í leik með Breiðabliki gegn Stjörnunni í Lengjubikarnum fyrr á árinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við höfum staðið saman sem lið, verið ákveðnari í okkar aðgerðum og þá sérstaklega í sóknarleiknum. Við erum beinskeyttari og liðsheildin blómstrar. Við höfum ótrúlega gaman þegar við erum saman og liðsheildin hefur skapað þetta góða gengi,“ sagði Birta Georgsdóttir, knattspyrnukona úr Breiðabliki, í samtali við Morgunblaðið aðspurð um lykilinn að góðu gengi Breiðabliks undanfarnar vikur. Eins og farið er yfir í Morgunblaðinu í dag var Birta besti leikmaðurinn í Bestu deildinni í júnímánuði samkvæmt einkunnagjöf blaðsins.

Aldrei slæmur mórall

Breiðablik vann alla fimm leiki sína í deild og bikar í júní eftir þrjú 0:1-töp með skömmu millibili í maí. Síðan þá hefur liðið raðað inn mörkum og skorað 21 mark í síðustu sex leikjum í öllum keppnum.

„Það var aldrei slæmur mórall, þannig séð. Við hugsuðum bara um næsta leik og hvað við gætum bætt og við vissum hvað það var sem við gátum bætt. Þetta var krefjandi á þeim tíma en núna erum við komnar á flott ról aftur og við höldum áfram að byggja ofan á það. Við fórum betur í sóknaraðgerðirnar, við erum áræðnari og Hildur [Antonsdóttir] er búin að vera frábær. Við erum með fullt af flottum leikmönnum í þessum hópi. Við höfum allar sýnt að við getum skorað mörk og gert góða hluti þegar við spilum saman,“ sagði hún.

Er að nýta tækifærin

Birta er nokkuð sátt við eigin frammistöðu í júní en hún er í mun stærra hlutverki á þessari leiktíð en þeirri síðustu.

„Ég tek alltaf einn leik í einu og ég geri alltaf mitt besta og legg mig 100 prósent fram í hverjum leik og ég reyni að hjálpa liðinu. Ég var í annarri stöðu í fyrra og meira á bekknum. Ég var í ákveðinni þróun. Nú er ég að fá meiri spiltíma og nýti tækifærin mín,“ sagði Birta.

Hún er uppalin í Stjörnunni en fór ung að árum til FH, þar sem hún fékk að spreyta sig almennilega í meistaraflokki í fyrsta skipti. Hún skipti hins vegar yfir til Breiðabliks fyrir síðasta tímabil eftir að FH féll úr efstu deild.

Viðtalið við Birtu má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert