HK og Fylkir komin í toppsætin

Stefán Ingi Sigurðarson skoraði tvö mörk fyrir HK í kvöld.
Stefán Ingi Sigurðarson skoraði tvö mörk fyrir HK í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

HK og Fylkir, liðin sem féllu úr úrvalsdeild karla í fótbolta síðasta haust, komust í tvö efstu sætin í 1. deild karla, Lengjudeildinni, með góðum sigrum í kvöld.

HK er komið með 15 stig á toppi deildarinnar og hefur nú unnið fjóra leiki í röð undir stjórn Ómars Inga Guðmundssonar. Fylkir og Selfoss eru með 14 stig og Grótta og Grindavík 13 stig. Þar á eftir koma Fjölnir með 11 stig og Kórdrengir með 10.

HK tók á móti Kórdrengjum í Kórnum og eftir markalausan fyrri hálfleik skoruðu Stefán Ingi Sigurðarson og Ásgeir Marteinsson fyrir HK á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks. Kórdrengir minnkuðu strax muninn í 2:1 með marki Þóris Rafns Þórissonar en Stefán Ingi skoraði aftur á 73. mínútu, 3:1.

HK missti Eið Atla Rúnarsson af velli með rautt spjald rétt fyrir leikslok.

Fylkir sótti Gróttu heim á Seltjarnarnes og vann stórsigur, 5:2, en Gróttumenn voru í öðru sæti fyrir leiki kvöldsins. Nikulás Val Gunnarsson og Mathias Laursen skoruðu fyrir Fylki í fyrri hálfleik. Kjartan Kári Halldórsson minnkaði muninn fyrir Gróttu úr vítaspyrnu í byrjun síðari hálfleiks en Benedikt Daríus Garðarsson svaraði strax fyrir Fylki, 3:1.

Róður Gróttunnar þyngdist þegar Kjartan Kári fékk rauða spjaldið skömmu síðar og þeir Þórður Gunnar Hafþórsson og Ómar Björn Stefánsson nýttu liðsmuninn og komu Fylki í 5:1. Luke Rae náði að laga stöðuna fyrir Gróttu rétt fyrir leikslok.

Upplýsingar eru fengnar af urslit.net

mbl.is