Margt breyst frá fyrsta stórmótinu

Dagný Brynjarsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir með viðurkenningar fyrir að …
Dagný Brynjarsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir með viðurkenningar fyrir að leika landsleiki númer 100 gegn Hvíta-Rússlandi í Belgrad í undankeppni HM í apríl. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Glódís Perla Viggósdóttir er, þrátt fyrir ungan aldur, einn allra reyndasti leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, sem heldur í næsta mánuði á sitt fimmta Evrópumót í sögunni, EM 2022 á Englandi.

Glódís, sem verður 27 ára næstkomandi mánudag, hefur leikið 101 landsleik og skorað í þeim sex mörk. Hún er sjálf á leið á sitt þriðja stórmót á ferlinum.

Hún lék þrjá af fjórum leikjum liðsins á EM 2013 í Svíþjóð, þar af einn í byrjunarliði, þá aðeins átján ára gömul, og byrjaði alla þrjá leiki þess á EM 2017 í Svíþjóð. Glódís kvaðst afskaplega spennt fyrir því að halda brátt á sitt þriðja Evrópumót með íslenska landsliðinu.

„Það leggst bara vel í mig. Þau eru öll búin að vera mjög mismunandi. Þetta byrjaði mjög smátt í Svíþjóð, var svo stærra í Hollandi og verður einhvern veginn ennþá stærra núna. Svo er ég að spila mikilvægara hlutverk núna en þegar ég fór á mitt fyrsta mót, þannig að ég er bara ótrúlega spennt. Við erum með flottan hóp,“ sagði Glódís í samtali við Morgunblaðið fyrir æfingu liðsins á Laugardalsvelli í gærmorgun.

Íslenska landsliðinu hefur vegnað vel að undanförnu og er til að mynda á toppi C-riðils í undankeppni HM 2023, einu stigi fyrir ofan ríkjandi Evrópumeistara Hollands. Liðið er skipað fjölda ungra og öflugra leikmanna, auk gífurlega sterkra, þaulreyndra eldri leikmanna.

Skemmri undirbúningur

Á EM á Englandi er liðið í erfiðum D-riðli með Frakklandi, Ítalíu og Belgíu. Franska liðið er talið langsigurstranglegast en hörð barátta gæti orðið milli Ítalíu, Íslands og Belgíu um annað sætið. Hversu langt telur Glódís að núverandi leikmannahópur Íslands geti komist á mótinu? „Þetta er náttúrlega gríðarlega sterkur riðill sem við erum í. Við erum með mjög spennandi hóp, erum með góða blöndu af ungum, mjög efnilegum og bara góðum leikmönnum í bland við reynslumeiri, eldri leikmenn.

Við förum inn í þetta mót og tökum einn leik í einu. Við ætlum að vinna fyrsta leik, af því að ef þú vinnur leik ertu í góðri stöðu til þess að komast upp úr riðlinum. Þetta verður hörkuerfitt. Belgar, og nánast öll hin liðin, hafa undirbúið sig töluvert lengur en við. Við erum að koma hingað á fyrstu æfinguna í dag [gær] þar sem við erum allar saman, á meðan flestir eru búnir að æfa saman síðan 1. júní,“ sagði Glódís, sem í vor lauk sínu fyrsta tímabili með þýska stórliðinu Bayern München. Hún samdi við félagið til þriggja ára síðasta sumar.

Viðtalið við Glódísi má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »