Sterkustu sigrarnir í lífinu geta komið eftir ósigra

Frá leiknum á Kópavogsvelli í kvöld.
Frá leiknum á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Hákon

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, var mjög kátur eftir 4:0-sigur liðsins á KR á heimavelli í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld. Óskar ræddi við mbl.is skömmu eftir lokaflautið.

„Það var kveikt á okkur og orkustigið var gott. Þetta var öflug frammistaða. Við hlaupum, erum duglegir og berjumst. Þegar það er í lagi þá kemur spilið og það er kveikt á mönnum. Mér fannst við leggja mikið á okkur og uppskera eftir því,“ sagði Óskar.

Breiðablik var 2:0 yfir í hálfleik og bætti við tveimur mörkum snemma í seinni hálfleik.

„Við töluðum um að keyra áfram, stíga bensíngjöfina í botn og ekki fara á bremsuna. Hægri fótinn niður, ekki nota vinstri fótinn. Við höfum stundum fallið í þá gryfju að hleypa liðum inn í leiki en við ætluðum ekki að gera það í kvöld. Við ætluðum ekki að verja neitt heldur halda áfram að sækja og halda áfram að þrýsta á þá,“ sagði hann.

Óskar Hrafn Þorvaldsson
Óskar Hrafn Þorvaldsson Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Breiðablik tapaði sínum fyrsta leik á tímabilinu gegn Val á útivelli á dögunum. Síðan þá hefur liðið unnið 4:1-sigur á KA og 4:0-sigur á KR.

„Við lítum ekki endilega á þetta sem svar. Sá leikur hefur sitt líf. Við töpuðum þeim leik en vorum að mörgu leyti mjög ánægðir með frammistöðuna. Þetta snýst um að finna stöðuleika og vita hvar þú ert góður og hvað þú getur bætt og þá hvernig bætt það.

Þú getur brugðist við tapi á tvo vegu; þú getur látið það hafa áhrif á þig og látið það draga úr þér kraft en þú getur líka nýtt það til góðra verka. Sterkustu sigrarnir í lífinu geta komið eftir ósigra.“

Mikkel Qvist fékk tækifærið í byrjunarliði Breiðabliks þar sem Damir Muminovic var í banni. Hann stóð fyrir sínu og lék mjög vel í hjarta varnarinnar.

„Mikkel kom mjög sterkur inn, átti frábæran leik og alls ekki auðvelt fyrir hann að koma inn eftir að hafa spilað lítið. Í fyrsta lagi meiddist hann rétt fyrir mót, fékk aftan í læri, og síðan erum við með Damir og Viktor sem hafa spilað frábærlega vel. Auðvitað eru þeir sem eru ekki að spila pirraðir. Það vilja allir spila og ef þú vilt ekki spila áttu sennilega ekki að vera í þessu. Hann hefður brugðist vel við hvernig hann spilaði í kvöld var æðislegt,“ sagði Óskar Hrafn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert