Afturelding fór illa með Þórsara

Aron Elí Sævarsson í leik með HK á sínum tíma. …
Aron Elí Sævarsson í leik með HK á sínum tíma. Hann skoraði tvívegis fyrir Aftureldingu í kvöld. Haraldur Jónasson/Hari

Afturelding vann öruggan 4:1-sigur á Þór frá Akureyri þegar liðin mættust í 1. deild karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni, í Mosfellsbænum í kvöld.

Leiknum var seinkað um 75 mínútu eftir að bilun kom upp í flugvélinni sem flutti Akureyringa til Reykjavíkur.

Georg Bjarnason kom Aftureldingu í forystu á 24. Mínútu og aðeins þremur mínútum síðar tvöfaldaði Aron Elí Sævarsson hana.

Afturelding leiddi því 2:0 í hálfleik.

Um miðjan síðari hálfleikinn skoraði Aron Elí annað mark sitt og þriðja mark Aftureldingar.

Á 73. mínútu kom svo fjórða markið þegar Orri Sigurjónsson varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Aðeins mínútu síðar lagaði Elvar Baldvinsson stöðuna aðeins fyrir Þór en niðurstaðan þriggja marka sigur Mosfellinga.

Afturelding fer með sigrinum upp í áttunda sæti deildarinnar þar sem liðið er nú með 9 stig, jafnmörg og Vestri í níunda sæti en betri markatölu.

Þór heldur kyrru fyrir í tíunda sæti með aðeins 5 stig, einu stigi fyrir ofan fallsæti.

Upp­lýs­ing­ar eru fengn­ar af urslit.net

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert