Geta ekki verið lélegir

Kristall Máni Ingason skoraði sigurmark Víkings í kvöld.
Kristall Máni Ingason skoraði sigurmark Víkings í kvöld. Hákon Pálsson,mbl.is/Hákon

Kristall Máni Ingason skoraði sigurmark Víkings í 1:0 sigri liðsins á In­ter d'Escaldes frá Andorra í úr­slita­leik for­keppni Meist­ara­deild­ar Evr­ópu í knatt­spyrnu karla á Vík­ings­velli í kvöld.

„Þetta var erfiður leikur, þeir voru þéttir til baka og spiluðu aftarlega á vellinum. Það er alltaf erfitt að komast í gegnum þannig lið. Við náðum þó inn marki og það er eina sem skiptir máli.“

Aðspurður út í hvort liðsmenn Inter d'Escaldes hefði komið Víkingi á óvart sagði Kristall:

„Nei, það kom okkur ekki á óvart, við vissum að þeir myndu liggja til baka og gefa okkur lítið pláss. Þetta eru meistararnir frá Andorra þannig þeir geta ekki verið lélegir í fótbolta. Þetta var bara hörkuleikur og eina sem skiptir máli er að fara til Malmö.“

Sáttur með sigurmarkið og hvernig meturðu möguleikana gegn Malmö?

„Það er alltaf gaman að setja inn sigurmarkið. Leikurinn gegn Malmö verður mjög erfiður. En ef við spilum okkar leik og spilum vel þá getum við strítt þeim.“

Víkingur hefur unnið sex leiki í röð í öllum keppnum eftir erfiða byrjun. 

„Menn eru að koma betur inn í þetta. Við misstum þrjá varnarmenn í fyrra og erum að fá þrjá nýja byrjunarliðsmenn inn í vörnina. Þeir eru að koma sterkir inn núna þannig þetta er allt að slípast saman,“ sagði Kristall að lokum við mbl.is.

mbl.is