Okkar heimavöllur og hér líður okkur vel

Óskar Hrafn Þorvaldsson stýrir Breiðabliki á Kópavogsvelli.
Óskar Hrafn Þorvaldsson stýrir Breiðabliki á Kópavogsvelli. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Breiðablik varð í gærkvöldi fyrsta íslenska knattspyrnuliðið í sögunni til að vinna sextán heimaleiki í röð í efstu deild karla. Með 4:0-sigrinum á KR á Kópavogsvelli í gær bætti Breiðablik 23 ára met ÍBV en Eyjaliðið vann fimmtán heimaleiki í röð á árunum 1997 til 1999. 

Breiðablik hefur alls unnið nítján leiki í röð í keppnisleikjum á heimavelli. „Þetta eru sextán leikir í deild, tveir í Evrópu og einn í bikarnum. Þetta eru nítján sigrar alls,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir leikinn í gær. Hann var með tölurnar á hreinu.

„Það er gaman og gott og liðinu líður vel hérna. Við erum með frábæra stuðningsmenn, stemningin, andrúmsloftið og völlurinn er allt gott. Þetta er okkar heimavöllur og hér líður okkur vel. Hér viljum við spila vel og gera vel fyrir stuðningsmennina okkar,“ bætti Óskar við. 

Umfjöllun um metið magnaða má sjá í Morgunblaðinu í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert