Nær Njarðvík að stríða KR? - Vinnur Eiður fyrsta heimaleik sinn?

Ná þeir svörtu og hvítu að stöðva funheita liðsmenn Njarðvíkur?
Ná þeir svörtu og hvítu að stöðva funheita liðsmenn Njarðvíkur? Eggert Jóhannesson

Þrír leikir eru á dagskrá kl 19:15 í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu í kvöld.  KR fer til Suðurnesjanna og mætir Njarðvík, FH fær ÍR í heimsókn og Fykir ferðast til Þorlákshafnar og mætir Ægi. 

Njarðvík hefur verið í góðu formi og er efst í 2. deildinni með 22 stig af 24 mögulegum eftir átta leiki. Í síðasta leik vann Njarðvík Ægi 6:0 þar sem hinn nítján ára Úlfur Björnsson skoraði þrennu. Í bikarnum sló Njarðvík út nágranna sína í Keflavík með sannfærandi 4:1 sigri. Njarðvíkingar eru því til alls líklegir að stríða KR í kvöld. 

KR tapaði síðasta leik sínum 4:0 gegn Breiðablik. Liðið hefur verið í miklu veseni á tímabilinu og er aðeins með 16 stig eftir ellefu leiki í deildinni. 

KR sló hinsvegar Stjörnuna út með sannfærandi 3:0 sigri í 32-liða úrslitunum og hugsar kannski frekar um þá frammistöðu er liðið undirbýr sig fyrir leikinn í kvöld. 

KR, sem úrvalsdeildarfélag, verður að teljast líklegri aðilinn hér í dag. En funheitir Njarðvíkingar með engu að tapa geta strítt þeim. 

Tvö félög í basli mætast í Hafnafirðinum 

Getur Kristinn Freyr Sigurðsson gert gæfumunninn í Krikanum?
Getur Kristinn Freyr Sigurðsson gert gæfumunninn í Krikanum? Arnþór Birkisson

FH og ÍR mætast einnig í kvöld. FH gerði jafntefli í síðasta leik sínum gegn ÍA i deildinni. Það var fyrsti leikur þjálfarans Eiðs Smára Guðjohnsen og Sigurvinar Ólafssonar, aðstoðarmans hans á tímabilinu. Leikaðstæður voru erfiðar upp á Akranesi þannig erfitt var að dæma um framfarir. 

FH hefur aðeins sótt níu stig í tíu leikjum en vann Kára í 32-liða úrslitunum 3:0. 

ÍR hefur einnig verið í miklu veseni í annarri deild. Félaginu var spáð góðu gengi fyrir tímabilið en situr sem er í sjötta sæti, átta stigum frá Þrótti R. sem er í öðru sæti. 

ÍR tapaði síðasta leik sínum á heimavelli 3:0 gegn Haukum. Arnar Hallsson, fyrrum þjálfari ÍR, hætti eftir 4:3 tap gegn KFA í þar síðasta leik ÍR og Atli Sveinn Þórarinsson og Ásgeir Þór Ingólfsson tóku við starfinu í síðasta leik gegn Haukum. ÍR sló Grindavík út í Grindavík í 32-liða úrslitunum með flottri frammistöðu.

Bæði lið þurfa virkilega á sigri en FH verður að teljast líklegri aðilinn. 

Barátta liðanna í þriðja sæti

Vinnur Fylkir í Þorlákshöfn?
Vinnur Fylkir í Þorlákshöfn? Eggert Jóhannesson

 Ægir og Fylkir mætast í Þorlákshöfn í kvöld. Bæði lið hafa verið í góðu formi og sitja í þriðja sæti í sínum deildum, Ægir í annarri deild og Fylkir í fyrstu. 

Þrátt fyrir gott form frá byrjun móts þá urðu Ægismenn fyrir flengingu í Njarðvík í síðasta leik og töpuðu, eins og áður kom fram, 6:0. 

Það var hinsvegar fyrsta tap Ægis sem sló út Hött/Huginn í 32-liða úrslitunum 3:1. 

Fylkir er partur af súpunni í 1. deildinni þar sem aðeins fjögur stig skilja fyrsta og fimmta sætið að. Fylkir vann sannfærandi 5:2 sigur á Gróttu í síðasta leik sínum á Seltjarnanesinu og sló út úrvalsdeildar félagið ÍBV 2:1 í 32-liða úrslitunum. 

Fylkir verður að teljast líklegri aðilinn þar sem félagið er í deild fyrir ofan Ægi. Ægismenn geta samt komið öllum á óvart og haldið taplausa árangri sínum áfram á heimavelli. 

mbl.is