„Gríðarlega svekktur að vera dottinn úr keppni“

Jón Þór Hauksson á hliðarlínunni í kvöld.
Jón Þór Hauksson á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki

Jón Þór Hauksson þjálfari ÍA var svekktur eftir 2:3-tap fyrir Breiðabliki í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu í kvöld. Honum fannst sem sínir menn ættu að fá meira út úr leiknum.

„Ég er gríðarlega svekktur að vera dottinn úr þessari keppni og að hafa tapað þesssum leik, mér fannst við ekki verðskulda það.

Frábær frammistaða hérna í seinni hálfleik og í raun og veru er það bara gríðarlega svekkjandi, við erum búnir með skiptingarnar þegar að Kaj Leo meiðist þannig að í raun og veru erum við manni færri hérna lokakaflann í leiknum og Breiðablik ná að nýta sér það og setja þetta þriðja mark,“ sagði Jón Þór í samtali við mbl.is eftir leik.

Seinni hálfleikur var töluvert betri hjá ÍA heldur en sá fyrri og var Jón Þór ánægður með hvernig liðið kom út í þann seinni.

„Við töluðum um það í hálfleiknum að velja augnablikin okkar betur þegar við gætum stigið upp með liðið og þétt okkur fyrir aftan þegar okkar fremstu menn voru að koma upp í pressuna. Það var allt annað í seinni hálfleik og miklu betra og ég er gríðarlega ánægður með seinni hálfleikinn“

Alexander Davey fór meiddur af velli í kvöld og vissi Jón Þór ekki mikið um heilsu hans.

„Nei ég hef engar fréttir strax eftir leik. Hann lendir illa og festist í grasinu og snýr upp á hnéð. Hann verður skoðaður og við sjáum til hvað gerist með það.“

Samkvæmt Jóni Þór er danskur framherji á leiðinni til liðsins.

„Við erum að fá danskan framherja og það er bara formsatriði hjá okkur að klára það og hann ætti að vera orðinn löglegur með okkur þegar glugginn opnar,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert