Tvær þrennur í sigri Víkinga

Helgi Guðnónsson kemur Víkingi í 2:0 í kvöld.
Helgi Guðnónsson kemur Víkingi í 2:0 í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Bikarmeistarar Víkings sýndu mátt sinn þegar þeir völtuðu yfir Selfyssinga, topplið Lengjudeildarinnar, í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu á Selfossi í kvöld. Lokatölur urðu 6:0.

Brekkan varð strax brött fyrir Selfyssinga því Helgi Guðjónsson kom Víkingum yfir eftir tíu mínútna leik, úr fyrstu alvöru sókn gestanna. Helgi var ekki hættur því hann bætti öðru marki við á 35. mínútu og kórónaði þrennuna svo með marki af vítapunktinum á 55. mínútu.

Hlutirnir litu ekki svo illa út fyrir Selfyssinga í leikhléinu, í stöðunni 2:0. En í upphafi seinni hálfleiks fór allt í skrúfuna. Varamaðurinn Aron Darri Auðunsson fékk að líta rauða spjaldið fyrir brot í vítateignum og í kjölfarið skoruðu Víkingar þriðja markið.

Þá var komið að þætti Loga Tómassonar. Hann skoraði tvö mörk með rúmlega mínútu millibili um miðjan seinni hálfleikinn og slökkti endanlega í vonum Selfyssinga, sem voru litlar fyrir á þessum tímapunkti. Það sást langar leiðir á Loga að hann langaði til þess að klára þrennuna og það tókst honum á 83. mínútu með góðu skoti úr teignum í stöngina og inn.

Bikarmeistararnir voru einfaldlega of stór biti fyrir Selfyssinga. Gestirnir rúlluðu boltanum vel og þeir vínrauðu þurftu að elta allan tímann. Færin voru ekki mörg hjá heimamönnum, Gonzalo Zamorano var líflegur í fyrri hálfleiknum og átti tvær góðar tilraunir. Annars var ljóst fyrir leik að kvöldið í kvöld var ekki forgangsatriði hjá Selfyssingum, lykilmenn voru hvíldir, enda bíður liðsins toppslagur í Grindavík á föstudaginn.

Selfoss 0:6 Víkingur R. opna loka
90. mín. Halldór Smári Sigurðsson (Víkingur R.) fær gult spjald Stoppar hraða aukaspyrnu Selfoss. Spurning hversu gáfulegt það er.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert