Íslenskur sigur í Póllandi

Svendís Jane Jónsdóttir fagnar ásamt Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur eftir að …
Svendís Jane Jónsdóttir fagnar ásamt Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur eftir að hafa komið Íslandi í 2:1 í dag. Ljósmynd/KSÍ/Adam Ciereszko

Ísland vann í dag Pólland á útivelli 3:1 í lokaleik í undirbúningi fyrir EM kvennalandsliða í knattspyrnu á Englandi.

Markaskorarar Íslands voru Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Sveindís Jane Jónsdóttir og Agla María Albertsdóttir. Mark Póllands skoraði liðsfélagi Sveindísar í Wolfsburg, Ewa Pajor. 

Pólland var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en mark liðsins kom á 45. mínútu eftir skyndisókn. Martyna Wiankowska kom boltanum yfir á fyrirliðann sinn Ewu Pajor sem sendi boltann í markið undir Söndru Sigurðardóttir.

Öll mörk íslenska liðsins komu í seinni hálfleik og var íslenska liðið allt annað að sjá í þeim seinni. Fyrsta mark Íslands skoraði Berglind Björg eftir undirbúning frá Gunnhildi Yrsu. Gunnhildur vann boltann hátt á vellinum, keyrði inn á teiginn og kom svo boltanum fyrir þar sem Berglind var réttur maður á réttum stað og sendi boltann snyrtilega inn í markið. 

Mark Sveindísar kom tveim mínútum eftir mark Berglindar. Sveindís keyrir inn í teig, keyrir fram hjá varnarmanni og neglir boltanum í markið með vinstri fæti. Rosalegur kraftur í henni sem verður spennandi að sjá á EM

Ísland lá í hápressu og uppskar úr því mark frá Öglu Maríu. Varnarmaður Póllands verður skiljanlega skelkuð að fá íslenska víkinga keyrandi á móti sér og kemur því með fínustu stoðsendingu fyrir Öglu Maríu rétt fyrir utan teiginn. Þú býður ekki Öglu Maríu upp á svona færi nema þú viljir fá mark á þig og auðvitað skilaði Agla María boltanum beinustu leið í netið.

Leikurinn átti að vera sýndur í beinni á RÚV en vegna tæknilegra örðugleika varð það ekki. Á vef RÚV kemur fram að ekki náðist samband við gervihnött sem sendi út leikinn. 

Þessi leikur var síðasti leikur stelpnanna okkar fyrir EM en mótið hefst 6. júlí. Næst fara stelpurnar til Þýskalands þar sem lokaundirbúningur liðsins fer fram áður en þær halda til Englands þar sem mótið er haldið. Fyrsti leikur Íslands er gegn Belgíu þann 10. júlí.

Pólland 1:3 Ísland opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is