Njarðvík halda engin bönd – fimmti sigur Þróttar í röð

Ólafur Jóhann Steingrímsson skoraði fyrsta mark Völsungs gegn ÍR í …
Ólafur Jóhann Steingrímsson skoraði fyrsta mark Völsungs gegn ÍR í kvöld. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Njarðvík vann annan 6:0-sigur sinn í röð í 2. deild karla í knattspyrnu þegar liðið mætti KF í kvöld. Þróttur úr Reykjavík vann þá fimmta sigur sinn í röð í deildinni er liðið heimsótti Hauka í Hafnarfjörðinn.

Topplið Njarðvíkur deildi mörkunum bróðurlega á milli sín.

Kenneth Hogg, Oumar Diouck og Hreggviður Hermannsson komust allir á blað í fyrri hálfleik og í þeim síðari bættu Bergþór Ingi Smárason, Ari Már Andrésson og Úlfur Ágúst Björnsson við mörkum.

Diouck og Úlfur Ágúst eru tveir markahæstu leikmenn deildarinnar; Diouck með 11 mörk og Úlfur Ágúst með níu.

Njarðvík er í efsta sæti með 25 stig og þar á eftir kemur Þróttur með 22 stig.

Þróttur lagði Hauka á Ásvöllum, 1:0, þar sem Sam Hewson skoraði sigurmarkið strax á elleftu mínútu.

Völsungur fékk ÍR í heimsókn á Húsavík og hafði góðan 3:1-sigur.

Stefán Þór Pálsson kom gestunum úr Breiðholti yfir á 17. mínútu áður en Ólafur Jóhann Steingrímsson jafnaði metin á 28. mínútu.

Áki Sölvason kom Völsungi svo yfir fjórum mínútum síðar og skoraði svo annað mark sitt eftir rúmlega klukkutíma leik og þar við sat.

KFA fékk Magna frá Grenivík í heimsókn í Fjarðabyggðarhöllina og unnu heimamenn 2:0-sigur.

Marteinn Már Sverrisson kom KFA í forystu á 78. mínútu. Abdul Karim Mansaray innsiglaði svo sigurinn á fjórðu mínútu uppbótartíma.

Botnlið Reynis frá Sandgerði tók þá á móti Víkingi úr Ólafsvík þar sem Ólsarar höfðu 4:3-sigur í æsispennandi leik.

Anel Crnac kom Reyni yfir á níundu mínútu þegar hann kom boltanum í eigið net en Andri Þór Sólbergsson jafnaði metin á 18. mínútu áður en Brynjar Vilhjálmsson sneri taflinu við fyrir Víking aðeins tveimur mínútum síðar.

Hörður Sveinsson jafnaði metin í 2:2 fyrir Reyni eftir hálftíma leik með marki úr vítaspyrnu og Sæþór Ívan Viðarsson kom heimamönnum úr Sandgerði svo yfir að nýju þremur mínútum síðar.

Skömmu fyrir leikhléi skoraði Brynjar Vilhjálmsson annað mark sitt og þriðja mark Víkings og jafnaði þar með metin í 3:3, sem voru hálfleikstölur.

Á 64. mínútu skoraði Bjartur Bjarmi Barkarson svo sigurmark Víkings.

Ægir hafði þá betur gegn Hetti/Huginn í Þorlákshöfn í leik sem þurfti að seinka um klukkutíma vegna seinkunar á flugi gestanna að austan. Lauk leiknum með 2:0-sigri Ægis.

Ágúst Karel Magnússon kom Ægi yfir á 20. mínútu og Milos Djordjevic innsiglaði svo sigurinn á 71. mínútu.

Ægir andar þar með í hálsmál Þróttar enda einnig með 22 stig en er í þriðja sætinu með lakari markatölu en Þróttur.

mbl.is