Fjölnir skellti HK

Hart barist í leiknum í kvöld.
Hart barist í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristvin Guðmundsson

Fjölnir hafði betur gegn HK, 3:1, þegar liðin mættust í 1. deild karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni, í Grafarvogi í kvöld.

Bruno Soares, miðvörður HK, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir 16 mínútna leik.

Hinn 19 ára gamli Lúkas Logi Heimisson tvöfaldaði forystuna eftir rúmlega hálftíma leik og skoraði svo annað mark sitt og þriðja mark Fjölnis skömmu fyrir leikhlé.

Staðan því 3:0 í hálfleik.

Í síðari hálfleik náði Örvar Eggertsson að laga stöðuna fyrir HK þegar hann skoraði á 83. mínútu en nær komust gestirnir ekki.

Fjölnir fór með sigrinum upp um tvö sæti, úr því sjöunda og upp í það fimmta þar sem liðið er nú með 14 stig, jafn mörg og Fylkir í fjórða sæti sem á þó leik til góða.

HK er áfram í þriðja sæti með 15 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert