„Maður er helvíti spenntur að fá Blikana"

Valgeir Valgeirsson eftir síðasta Kópavogsslag þegar HK féll.
Valgeir Valgeirsson eftir síðasta Kópavogsslag þegar HK féll. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Dregið var í 8-liða úrslit í mjólkurbikar karla í knattspyrnu í dag. Drátturinn fór þannig fram að dregið var lið sem fær heimaleik og upp kom fulltrúi liðsins og dró mótherja. Fulltrúi HK dró Kópavogsslag.

HK fékk heimaleik svo upp fór Arnþór Ari Atlason, leikmaður HK og dró Breiðablik. Arnþór Ari kom til HK frá Breiðabliki árið 2018. Á leiðinni til baka frá borðinu fagnaði Arnþór og knúsaði Höskuld Gunnlaugsson, gamla liðsfélaga sinn og fyrirliða Breiðabliks, augljóslega spenntur fyrir leiknum.

Síðasti leikur HK og Breiðabliks var á stút fullum Kópavogsvelli, heimavelli Breiðabliks en sá leikur fór 3:0 fyrir Breiðablik sem gerði það að verkum að HK féll úr efstu deild. Svo auðvelt er að segja að HK sé í hefndarhug.

Valgeir Valgeirsson spilaði allan leikinn síðast þegar liðin mættust og er uppalinn í HK. Um það að fá Breiðablik sem mótherja sagði Valgeir að það væri skemmtilegt. „Maður er helvíti spenntur að fá Blikana.

Ég spáði því að við myndum fá Blika og að það væri á heimavelli svo þetta gekk bara allt upp að minni hálfu.

Þetta er eitt besta lið í dag á Íslandi en þetta verður skemmtilegur leikur og vonandi koma sem flestir.“ Það þarf sjaldan að sannfæra Kópavogsbúa um að koma á nágrannaslaginn en leikurinn er spilaður 31. júlí sem er sunnudagurinn um verslunarmannahelgina.

Markahæsti leikmaður HK þessa stundina er Stefán Ingi Sigurðarson, með 4 mörk en hann er á láni frá Breiðablik. Þar sem hann er á láni verður HK að biðja um leyfi til þess að hann fái að spila leikinn.

„Ég geri ekki ráð fyrir því að hann fái leyfi til þess að spila, við munum alveg örugglega spyrja þá en mér heyrist á þeim Blikum sem voru mættir í dráttinn að það væri mjög ólíklegt að við fáum það samþykkt.“ segir Ómar Ingi, þjálfari HK. 

Ómar Ingi er núverandi þjálfari HK sem situr í 3. sæti Lengjudeildarinnar. Ómar Ingi tók tímabundið við eftir að Brynjar Björn, fyrrum þjálfari meistaraflokks HK fór til Örgryte í Svíþjóð.

Ekki er víst hvort Ómar Ingi verði þjálfari liðsins þegar Kópavogsslagurinn verður. „Ég get lítið tjáð mig um það annað en að eins og staðan er núna er ég þjálfari liðsins og hef fullt traust frá stjórn til að halda því áfram. Hvað gerist svo í framhaldinu verður bara að koma í ljós," sagði Ómar en HK hefur unnið fimm leiki í röð undir hans stjórn.

mbl.is