Öruggur Víkingssigur á KR-velli

Nikolaj Hansen kemur Víkingi í forystu í kvöld.
Nikolaj Hansen kemur Víkingi í forystu í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Íslands- og bikarmeistarar Víkings héldu áfram sigurgöngu sinni í kvöld í Bestu deild karla, er þeir unnu KR-inga með þremur mörkum gegn engu á Meistaravöllum í kvöld. 

Leikurinn var mikill baráttuleikur, og fengu Víkingar þrjú ágæt færi á þremur fyrstu mínútum leiksins. KR-ingar sóttu hins vegar í sig veðrið, og átti Atli Sigurjónsson til dæmis skot í stöngina úr þröngu færi á fjórðu mínútu, og bæði Kjartan Henry Finnbogason og Kennie Chopart fengu góð færi á markteig, en inn vildi boltinn ekki.

Á 31. mínútu dróg til tíðinda, en þá komst Viktor Örlygur Andrason framhjá Kennie Chopart, sem náði ekki að hreinsa boltann og braut klaufalega á Viktori. Nikolaj Hansen skoraði úr vítaspyrnunni af miklu öryggi. 

KR-ingar héldu áfram að sækja, og átti Ægir Jarl Jónasson dauðafæri á 41. mínútu. Nikolaj var hins vegar hársbreidd frá því að bæta við öðru marki sínu í uppbótartíma þegar hann skallaði boltann í slána eftir hornspyrnu, en boltinn skoppaði niður á grasið og út. 

Seinni hálfleikur einkenndist af mikilli baráttu, og enn reyndu KR-ingar að minnka muninn. Pablo Punyed átti hins vegar næsta leik fyrir Víkinga, en hann skoraði beint úr aukaspyrnu á 64. mínútu, þar sem Beitir stóð of langt frá línu sinni og virtist gera ráð fyrir að Pablo myndi gefa hann fyrir. 

Þó að KR-ingar reyndu allt hvað þeir gátu til að minnka muninn vantaði hins vegar nokkuð upp á að þeir gætu breytt sóknum sínum í færi. Víkingar náðu hins vegar að þreyta laxinn, og var það því nokkuð verðskuldað þegar Halldór Smári Sigurðsson skoraði þriðja mark gestanna á 82. mínútu.

Fyrir leikinn í kvöld var KR í sjötta sæti með 16 stig og eru þar enn eftir þetta tap, með fjóra sigra, fjögur jafntefli og fjóra ósigra. Víkingar komu sér hins vegar upp í annað sætið, með 22 stig eftir 11 leiki, en bæði Stjarnan og Valur bíða skammt undan með leik til góða. 

Bæði lið halda nú til Evrópu, en víst munu Víkingar vera sáttari við veganestið sem þeir fengu hér í kvöld. Þeir bættu fyrir lakan fyrri hálfleik með flottri frammistöðu í þeim síðari, þar sem þeir gáfu KR-ingum í raun ekki færi á að komast aftur inn í leikinn. KR-ingar geta hins vegar nagað sig í handarbökin að hafa ekki verið komnir með þægilega forystu þegar Víkingar fengu vítaspyrnuna. Þeir grófu sér síðan of djúpa holu til þess að komast upp úr henni aftur í síðari hálfleik. 

KR 0:3 Víkingur R. opna loka
90. mín. Uppbótartíminn er þrjár mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert